Þegar við setjum eitthvað sætt upp í munninn hvort sem það er sætur gosdrykkur, sykurmoli, konfektmoli eða sykrað kaffi – örvast sömu heilastöðvar og kókaín hefur áhrif á.
Í heilanum eru svonefndar vellíðunarstöðvar sem örvast við sykurneyslu á sambærilegan hátt og þegar eiturlyf eru annars vegar. Það sem verra er er að nýlegar rannsóknir við Háskólann í Bordeaux í Frakklandi sýna fram á að áhrifin eru jafn ávanabindandi og jafnvel meiri en sú fíkn sem fylgir eiturlyfjum á borð við kókaín. Þarna kemur kannski skýringin á því hvers vegna við eigum svona erfitt með að leggja frá okkur konfektkassann þegar hann á annað borð er kominn í fangið á okkur.
Að meðaltali erum við að borða 300 hitaeiningum meira á dag en forfeður okkar gerðu fyrir einungis 30 árum. Það kann að virðast lítið, en safnast þegar saman kemur eins og sjá má á vigtinni. Mörgu er um að kenna. Matvælaframleiðendur vita að sætar matvörur seljast betur. Þeir bæta því sykri og sætubragði í matvörur í auknum mæli, oft í formi kornsýróps sem er ódýrt hráefni. Ein ástæða þess að fólk á erfitt með að standast hitaeiningalágt mataræði og léttast er sú að ávanabindandi áhrif sykurs eru allt í kringum okkur. Þegar við sleppum máltíðum og blóðsykurinn hrapar óþarflega mikið niður fer sjálfsaginn norður og niður, fíknin nær yfirhöndinni og tölurnar á vigtinni hækka.
(Current Opinion Clinical Nutrition Metabolic Care, 16:461-465, 2013)