Site icon Fitness.is

Sykur ávanabindandi

Margir halda því fram að þeir séu háðir súkkulaði eða þá að þeir séu alltaf í sykurþörf. Spurningin er hvort þeir séu svona óagaðir eða hvort þeir séu virkilega háðir sælgæti og sætum mat? Fjallað var um rannsókn eftir Dr. Bart Hoebel í Reuters Health ritinu í sumar en hann var að kynna rannsóknir sínar fyrir Félagi bandarískra sálfræðinga. Hann gerði rannsóknir á rottum sem hann hafði fóðrað á sykri. Breytingar urðu á heila rottana sem urðu til þess að löngun þeirra í sykur varð mikil. Heilinn framleiðir mikið af ópíðum og dópamíni fyrir tilstuðlan sykurs. Þessi efni eru sæluaukandi sem og örvandi. Viðtakarnir í heilanum fyrir þessi efni stækkuðu í rottunum eftir sykurátið sem varð til þess að heilinn varð háður þeim. Rottur sem voru orðnar háðar sykrinum fengu fráhvarfseinkenni þegar þær fengu engan sykur. Tennurnar í þeim tóku að glamra, þær urðu taugaveiklaðar og skræktu. Þegar blessaðar rotturnar fengu aftur sykur hámuðu þær hann í sig. Svo virðist vera sem bragðið hafi meira að segja en hitaeiningarnar sjálfar hvað ávana snertir. Það þótti vera ljóst þar sem rotturnar gátu einnig orðið háðar sakkaríni. Í samantekt sinni vörpuðu vísindamennirnir fram þeirri tilgátu að fæðan sjálf gæti verið ávanabindandi fyrir sumt fólk sem aftur getur verið að hluta til skýringin á offitufaraldrinum.

Exit mobile version