Site icon Fitness.is

Sólhattur kemur í veg fyrir kvef og flýtir fyrir bata

Nokkuð algengt er að fólk taki svonefndan Sólhatt (echinacea) gegn kvefi. Vísbendingar eru um að hann flýti fyrir því að sár grói og vinni gegn sýkingum.Nokkrar rannsóknir benda einnig til að hann auki framleiðslu líkamans á erythropoietin hormóninu (EPO). Þetta hormón er eitt af þeim hormónum sem leitað er að í lyfjaprófum íþróttamanna, en Sólhattur er engu að síður löglegur. Erythropoietin hormónið hvetur til nýmyndunar rauðra blóðkorna. Þessi staðreynd skýrir hvers vegna íþróttamenn hafa áhuga á Sólhatti. Vísindamenn eru hinsvegar ekki sammála um það hversu vel erythropoietin virkar. Tölfræðileg safngreining (meta-analysis) 14 óskyldra rannsókna sem könnuðu allar áhrif Sólhatts á kvef sýndi fram á töluverða en misjafna virkni. Þegar Sólhattur er tekinn ásamt C-vítamíni virtist hættan á að fá kvef minnka um 86% en um 65% ef einungis Sólhattur er tekinn. Í tilraunum þar sem fólk var sprautað með kvef-valdandi vírus voru jafnvel 35% minni líkur á að fólk fengi kvef ef það hafði fengið Sólhatt heldur en fólk sem fékk lyfleysu (þykjustu-Sólhatt). Í rannsókn sem stjórnað var af Heather Hall við Elmhurst háskólann og Wayne fylkisháskólann í bandaríkjunum kom í ljós að Sólhattur kom í veg fyrir bælingu ónæmiskerfisins sem á sér stað eftir erfiðar æfingar. Þeir sem höfðu fengið Sólhatt við kvefi í kjölfar ofþjálfunar voru fljótari að ná bata en þeir sem ekki fengið Sólhatt. Það virðist nokkuð ljóst að Sólhattur styrkir ónæmiskerfið en ekki er vitað nákvæmlega hvernig virkni hans er háttað né í hvaða formi hann hafi mesta virkni. Sólhattur virðist augljóslega draga úr líkunum á því að fólk fái kvef og flýti fyrir því að fólk læknist ef það á annað borð fær kvef. Fólk með bælt ónæmiskerfi hefur mest gagn af því að taka Sólhatt. Lancet, Infectious Diseases, 7:473-480, 2007 og International Sports Medicine, 28: 792-797, 2007

Exit mobile version