Site icon Fitness.is

Ólífuolía dregur úr áhættu af völdum insúlínviðnáms

Insúlínviðnám er ástand sem myndast í líkamanum þegar virkni insúlín hormónsins sem briskirtillinn framleiðir minnkar. Hlutverk insúlíns er að lækka blóðsykur en briskirtillinn framleiðir insúlín þegar við borðum kolvetni. Kolvetni er allur sykur, sætindi, pasta, hveiti, korn og kartöflur svo eitthvað sé nefnt. Allt sem við borðum úr jurtaríkinu inniheldur kolvetni.

Ákveðnar fitu- og vöðvafrumur þurfa á insúlíni að halda til þess að nýta glúkósa (kolvetni – einsykra) og þegar hæfni þessara frumna til að taka við insúlíninu minnkar fer blóðsykurinn hækkandi með tilheyrandi heilbrigðisvandamálum. Lifrin aðstoðar við að stjórna glúkósamagninu í blóðinu með því að draga úr úrvinnslu þess þegar insúlín er til staðar í blóðrásinni. Þannig gerist það hjá fólki sem hefur myndað insúlínviðnám að lifrin hættir að bregðast við insúlíninu með eðlilegum hætti.

Sífellt sætindaát er talið leggja ofurálag á briskirtilinn sem framleiðir mikið magn insúlíns til þess að bregðast við flökti á blóðsykrinum.

Insúlínviðnám er talið tengjast háþrýstingi, magafitu, óeðlilegri blóðfitu, sykursýki og ýmsum bólgum. Í ofanálag eykur þessi efnaskiptavandi hættuna á heilablóðfalli, hjartaáfalli og ákveðnum tegundum krabbameins.

Spænsk rannsókn á fólki sem lifir á svonefndu Miðjarðarhafsmataræði leiddi í ljós minni hættu á insúlínviðnámi hjá fólki sem notar mikið af ólífuolíu í matseld. Margar nýlegar rannsóknir hafa sömuleiðis sýnt fram á að að Miðjarðarhafsmataræðið er mjög heppilegt til að fyrirbyggja kransæðasjúkdóma. Umrædd rannsókn sýnir að með því að nota ólífuolíu í mataræðið dregur úr insúlínviðnámi og hún stuðlar þannig að heilbrigðari efnaskiptum.

(Clinical Nutrition 30: 590-592, 2011)

Exit mobile version