Ákveðnar fitu- og vöðvafrumur þurfa á insúlíni að halda til þess að nýta glúkósa (kolvetni – einsykra) og þegar hæfni þessara frumna til að taka við insúlíninu minnkar fer blóðsykurinn hækkandi með tilheyrandi heilbrigðisvandamálum. Lifrin aðstoðar við að stjórna glúkósamagninu í blóðinu með því að draga úr úrvinnslu þess þegar insúlín er til staðar í blóðrásinni. Þannig gerist það hjá fólki sem hefur myndað insúlínviðnám að lifrin hættir að bregðast við insúlíninu með eðlilegum hætti.
Sífellt sætindaát er talið leggja ofurálag á briskirtilinn sem framleiðir mikið magn insúlíns til þess að bregðast við flökti á blóðsykrinum.
Insúlínviðnám er talið tengjast háþrýstingi, magafitu, óeðlilegri blóðfitu, sykursýki og ýmsum bólgum. Í ofanálag eykur þessi efnaskiptavandi hættuna á heilablóðfalli, hjartaáfalli og ákveðnum tegundum krabbameins.
Spænsk rannsókn á fólki sem lifir á svonefndu Miðjarðarhafsmataræði leiddi í ljós minni hættu á insúlínviðnámi hjá fólki sem notar mikið af ólífuolíu í matseld. Margar nýlegar rannsóknir hafa sömuleiðis sýnt fram á að að Miðjarðarhafsmataræðið er mjög heppilegt til að fyrirbyggja kransæðasjúkdóma. Umrædd rannsókn sýnir að með því að nota ólífuolíu í mataræðið dregur úr insúlínviðnámi og hún stuðlar þannig að heilbrigðari efnaskiptum.
(Clinical Nutrition 30: 590-592, 2011)