Það er sannkallaður línudans fyrir íþróttamenn að æfa eins mikið og þeir geta til þess að ná sem mestum árangri án þess að verða ofþjálfun að bráð. Flestir keppendur, sama hvað íþróttagreinin heitir þekkja það að ofþjálfun er varasöm fyrir margra hluta sakir. Flensur og kvef eru gjarnan fylgifiskur ofþjálfunar að því er talið er vegna þess að ónæmiskerfi líkamans er ekki eins sterkt og eðlilegt þykir. Ofþjálfun er í stuttu máli ójafnvægi á milli æfinga og hvíldar. Afleiðingarnar geta verið mjög alvarlegar. Fyrir utan flensur og kvef verður árangur íþróttamannsins lakari og í verstu tilfellum leiðir ofþjálfun til þunglyndis.
Æfingaáætlanir verða að vera nægilega erfiðar til þess að íþróttamaðurinn nái árangri en um leið þarf hvíldin að nægja til þess að líkaminn jafni sig. Dæmi eru um að íþróttamenn sem hafa slasast og átt erfitt með að ná sér af meiðslum vegna ofþjálfunar til lengri tíma.
Vísindamenn við Háskólann í Illinoi í Bandaríkjunum endurskoðuðu rannsóknir sem varða ofþjálfun og komust að þeirri niðurstöðu að langvarandi ofþjálfun bældi ónæmiskerfið og yki hættuna á sýkingum í efri öndunarvegi. Hóflegar æfingar hafa öfug áhrif – efla ónæmiskerfið og minnka líkurnar á sýkingum. Æfingaáætlunin þarf að vera nægilega erfið til þess að efla hreysti en ekki það erfið að viðkomandi veikist eða slasist.
(Exercise Sports Science Reviews, 37: 157-164, 2009)