Site icon Fitness.is

Mjúk fita í staðinn fyrir harða

Fitu má skipta í tvo meginflokka: mjúka fitu og harða. Mjúk fita er yfirleitt fljótandi við stofuhita en hörð fita er í föstu formi við stofuhita. Hörð fita hefur ýmist að geyma mikið af mettuðum fitusýrum eða mikið af trans-fitusýrum en báðar tegundirnar hækka kólesterólið. Mjúk fita er hins vegar gerð úr ómettuðum fitusýrum sem hafa ekki slík áhrif. Þess vegna er ástæða til að velja fremur mjúka fitu í staðinn fyrir harða, ekki síst við matargerð og sem viðbit.

Þessar fæðutegundir eru með mjúka fitu: Matarolíur, t.d. ólífuolía, sólblómaolía, maísolía, sojaolía, rapsolía og jarðhnetuolía, einnig lýsi og feitur fiskur. Fitan í hnetum, möndlum og fræjum er einnig mjúk og sömu sögu er að segja af lárperu (avókadó). Sumar tegundir af smjörlíki eru auk þess gerðar úr tiltölulega mjúkri fitu. Það er þó ekki nóg að smjörlíkið sé gert úr jurtafeiti, því að jurtafeiti getur verið hörð engu síður en fita úr dýraríkinu. Nægir þar að nefna kókósfeiti eða palmín sem er mjög hörð fita. Eins er jurta- eða fiskfita oft hert, þ.e.a.s. fljótandi olíum er breytt í harða feiti til smjörlíkisgerðar og matvælaframleiðslu. Jurtaís er t.d. gerður úr hertri fitu og svipaða sögu er að segja af flestum tegundum steikingar- og bökunarsmjörlíkis.

(Bæklingur Lýðheilsustöðvar: Ábendingar um mataræði)

Exit mobile version