Site icon Fitness.is

Kyrrsetuvinna og sófaslökun á kvöldin er hættulegri en fallhlífastökk

Sannanir streyma nú inn í formi rannsóknarniðurstaðna um hættuna sem þetta felur í sér, sérstaklega fyrir þá sem vinna kyrrsetuvinnu fyrir framan tölvu stóran hluta dagsins og halda kyrrsetunni áfram að kvöldi til. Lífsstíllinn og vinnulagið sem við höfum skapað okkur í dag byggist á tölvum. Langur vinnudagur felst þar af leiðandi í löngum setum fyrir framan tölvuskjá.

Samkvæmt nýlegum niðurstöðum umfangsmikilla rannsókna vísindamanna frá Nýja Sjálandi eru ýmsir neikvæðir fylgikvillar tölvuvæðingarinnar að koma fram. Ekki er langt síðan 32 ára karlmaður greindist með blóðtappa í fæti. Ekki var hægt að rekja orsökina til annars en þess að hann sat fyrir framan tölvu í allt að 12 klukkustundir á dag. Blóðtappi er hinsvegar ekki það eina sem ógnar skrifstofu- eða tölvuvinnandi fólki. Skrifstofufólk er tvöfallt líklegra en annað til að fá ristilkrabbamein og mælist með hærri blóðsykur, meira mittismál og lægra hlutfall góða kólesterólsins en annað fólk. Önnur rannsókn sem gerð var við Pennington Læknamiðstöðina í Louisiana sýnir sömuleiðis fram á að fólk sem vinnur kyrrsetuvinnu er 54% líklegra en annað til að fá hjartasjúkdóma.

Kyrrsetuvinna er vandamál sem getur verið hættulegt og ekki minnkar það þegar heim er komið og letilíf tekur við.

Kyrrsetuvinna er vandamál og ekki minnkar það þegar heim er komið og letilíf tekur við. Afþreying nútímans byggist að verulegu leyti á sjónvarpi eða tölvum sem í eðli sínu hvetur til hreyfingaleysis. Á meðan hugurinn hefur næga afþreyingu fyrir stafni grotnar skrokkurinn niður. Vísindamenn við Harvard háskóla hafa sýnt fram á að fyrir hverjar tvær klukkustundir á dag sem fara í að horfa á sjónvarp aukast líkurnar á áunninni sykursýki tvö um 20% og líkurnar á hjartasjúkdómum um 15%. Þegar á heildina er litið er kyrrsetulífið líklega mun hættulegra en að stunda fallhlífastökk.

Æfing á hverjum degi leysir ekki öll vandamál

Konur sem sitja lengur en sex klukkustundir á dag eru í tæplega 40% meiri hættu til að deyja innan 15 ára en þær sem sitja minna en þrjá tíma á dag. Engu skiptir hversu mikið þessir hópar æfa samkvæmt niðurstöðum rannsókna á vegum Bandarísku krabbameinssamtakana. Af niðurstöðum þeirra rannsókna sem hafa verið að birtast nýverið er engu líkara en að það að setjast niður slökkvi á starfsemi ensímsins lípasa í líkamanum sem þjónar því hlutverki að vinna úr fitu. Með því að standa örvast vöðvar líkamans og hvatning er til staðar til að halda áfram úrvinnslu fitu og blóðsykurs. Afleiðingin er minni hætta á áunninni sykursýki og meltingin verður mun betri. Það að sitja hægir á allri meltingu og til lengri tíma getur það valdið ýmsum meltingarvandamálum. Við virðumst því þurfa að hreyfa okkur með reglulegu millibili yfir daginn til þess að forðast þessar neikvæðu aukaverkanir. Það er ekki nóg að skreppa einu sinni á dag á æfingu ef þess á milli er setið í margar klukkustundir. Æfingar hafa vissulega í för með sér marga jákvæða kosti til betri lífsgæða. Niðurstöður þessara rannsókna segja okkur hinsvegar að þær leysi ekki kyrrsetuvandann ef við stöndum ekki upp reglulega.

Kyrrseta fyrir framan tölvu eða sjónvarp hefur ekki bara neikvæð áhrif á meltingu og innri líffæri heldur sömuleiðis hin ýmsu liða- og bakvandamál. Vöðvar, liðamót og beinagrindin verður einnig fyrir áhrifum. Hryggjaliðir pressast saman og næringar- og súrefnisstreymi til liðamóta er ekki eðlilegt þegar við sitjum langtímum saman. Með því að hanga yfir tölvuskjá allan daginn slappast brjóstvöðvarnir, kálfavöðvar og innanlærisvöðvar styttast vegna þess að hnén eru bogin langtímum saman. Þessi vandamál leiða til þess að erfiðara verður að æfa, þrátt fyrir að menn séu duglegir að mæta daglega í ræktina.

Exit mobile version