Eftirfarandi er greinin sem við skrifuðum fyrir 25 árum.
Heilsuæði – eða komið til að vera?
Heilsuæði og heilsubóla eru slagorð sem flestir kannast við og hafa lengi verið milli tannanna á fólki. Dagblöðin hafa verið dugleg við að smjatta á þessari bólu og yfirleitt alltaf látið það fylgja að þetta sé eitthvað sem sé að ganga yfir og eigi eftir að falla úr tísku. En er svo?
Þetta sem menn kalla heilsuæði og hófst í Bandaríkjunum upp úr 1930 fer ennþá vaxandi. Samt sem áður hafa menn alltaf talað um að þetta sé nokkuð sem eigi eftir að deyja út. Það að hugsa um heilsuna kemur ekki til með að deyja út, einfaldlega vegna þess að með aukinni fræðslu nú á dögum sjá menn betur að þeir krankleikar sem menn eiga í höggi við svo sem hjarta- og kransæðasjúkdómar, offita, æðahnútar, sykursýki, botnlangabólga og harðlífi eiga rætur sínar að rekja til einhæfs og rangs mataræðis og hreyfingarleysis auk þess sem stress og reykingar eiga þar einnig stóran þátt. Það sem menn gera síðan til þess að halda í heilsuna og vera vel á sig komnir er mjög misjafnt. Algengast er þó að menn stundi einhverjar íþróttir og kennir þar ýmissa grasa. Úrvalið er mikið og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi án tillits til aldurs eða líkamlegs ástands. Það er þó allt of algengt að einungis þeir sem eru í góðu formi stundi einhverjar íþróttir og þeir sem eru illa á sig komnir líkamlega og þurfa í raun og veru mest á því að halda stundi enga líkamsrækt. Eldra fólk hefur oft mesta þörfina fyrir það að hreyfa sig en lítur á íþróttir sem eitthvað fyrir unga fólkið.
Fólk á aldrinum 30-50 hefur enga afsökun fyrir því að vera í lélegu formi, en á þessum aldri fer það einmitt að segja til sín ef menn vanrækja sig. Margir á þessum aldri geta varla reimað skóna sína hjálparlaust vegna offitu og kvala hér og þar í skrokknum sem enn og aftur stafar af þessu sama þ.e.a.s. röngu mataræði og hreyfingarleysi.
Þetta er sem sagt nánast eingöngu eigið sjálfskaparvíti og aumingjaskapur sem enginn getur bjargað manni út úr nema maður sjálfur og því fyrr sem menn byrja að snúa þessari þróun við því betra.
Ennþá er u.þ.b. helmingur þjóðarinnar sem hefur komist að þeirri niðurstöðu að það sé lang best að sitja fyrir framan sjónvarpið í afslappandi stellingum og horfa stjörfum augum á allt sem á skjáinn kemur teljandi sjálfum sér trú um að þeir séu svo þreyttir eftir vinnudaginn að þeim sé ómögulegt annað en sitja þarna hálf rænulausir allt kvöldið og hvíla sig. En staðreyndin er nefnilega sú að með því að taka hæfilega æfingu eftir vinnu, endurnýja menn þrótt sinn og verða hressari eftir það.
Svo er það þetta sívinsæla að hafa ekki tíma til að stunda líkamsrækt en það er mjög léleg afsökun vegna þess að hálfrar klukkustundar líkamsrækt 4 sinnum í viku geta flestir stundað sé viljinn fyrir hendi.
Spurningunni um hvaða líkamsrækt hentar hverjum og einum er ekki hægt að svara nákvæmlega en flestar íþróttir geta menn stundað að einhverju marki á hvaða aldri sem er. Æskilegt er þá að blanda saman þolæfingum og styrkjandi æfingum. Sem dæmi um styrkjandi æfingar eru leikfimiæfingar og æfingar með lóðum og í tækjum. En dæmi um þolæfingar eru ganga, hlaup, sund og einnig til dæmis dans. Bestu æfingarnar til að byggja upp styrk og stælingu eru með lóðum og í tækjum vegna þess að þar getur þú valið þá þyngd sem þér hentar en í leikfimiæfingum hefur þú aðeins eina þyngd sem er þín eigin líkamsþyngd. Stundum er hún of mikil eða of lítil. Þú getur hvort heldur sem þú vilt valið þér einstaklings- eða hópíþrótt. Kosturinn við það að stunda einstaklingsíþrótt er fyrst og fremst sá að þú ert engum háður og æfir á þeim hraða og af þeim krafti sem þér hentar. En hins vegar kostirnir við hópíþróttirnar eru þeir að félagarnir hvetja þig áfram og veita þér aðhald þó svo að það megi einnig segja um einstaklingsíþróttirnar.
Í sambandi við rétt mataræði er litla aðstoð að fá og standa íþróttafélögin og leiðbeinendur þeirra sig vægast sagt mjög illa í þeim efnum, en eru þó eitthvað að vakna til meðvitundar um það hvað mataræði er stór þáttur í því að ná árangri í íþróttum.
Það er ótrúlegt að keppnisfólk sem stundað hefur íþrótt sína í tíu til fimmtán ár skuli ekki vita nokkurn skapaðan hlut um næringarfræði. Það er staðreynd að svona er þetta í dag. Besta leiðin fyrir þann sem vill eitthvað fræðast um rétt mataræði er að lesa sér sjálfur til í þeim efnum og til þess eru til ýmis tímarit svo sem Líkamsrækt og næring og ýmis erlend líkamsræktarblöð. Það á við um þessi efni eins og önnur að þú uppskerð eins og þú sáir.
(Skrifað árið 1988 fyrir Dagblaðið Dag)
Einar Guðmann.
Sigurður Gestsson.