Vesturlandabúar eru á tindi velmegunar og um leið offitufaraldurs sem á sér enga samlíkingu. Fjöldinn sem greinist með áunna sykursýki og skilgreinist sem offitusjúklingar fer hratt hækkandi. Svissneskir vísindamenn hafa skellt skuldinni á kolvetnaríkt mataræði en í byrjun síðustu aldar var áunnin sykursýki meðhöndluð með prótínríku og kolvetnalitlu mataræði með góðum árangri. Undanfarin 40 ár hafa hinsvegar virtar stofnanir, þar á meðal Manneldisráð mælt með fitulitlu en kolvetnaríku mataræði. Hvort sem það er því um að kenna eða blöndu annarra þátta og auknu hreyfingaleysi, þá hefur offita og áunnin sykursýki náð áður óþekktum hæðum í kjölfarið. Ekki er hægt að útiloka að prótínríkara og kolvetnaminna mataræði myndi snúa þessari þróun við.
(European Journal Clinical Nutrition, 67: 462-466, 2013)