Site icon Fitness.is

Ekki fitna á miðjum aldri

Löngum hafa menn velt fyrir sér hvers vegna sumir fitna á miðjum aldri en aðrir ekki. Þetta fyrirbæri er það algengt að það er nánast talið sjálfsagt. Það er þó langt því frá að vera sjálfsagt. Ef þú ert búin að fitna óhóflega er ólíklegt að þú getir skellt skuldinni á eitthvað annað en eigin lífshætti. Vísindamenn við Bandaríska Krabbameinsfélagið í Atlanta spurðu 80,000 manns árið 1982 út í ýmsa þætti sem snéru að lífsháttum og mataræði (þá voru flestir á aldrinum 40-54 ára) og síðan voru þeir spurðir aftur tíu árum síðar árið 1992. Hægt var að bera saman þá 25,000 sem fitnuðu ekki við þá 50,000 sem fitnuðu.Niðurstaðan var frekar afgerandi. Mun ólíklegra var að fólk fitnaði sem sagðist borða mest af grænmeti. ( a.m.k. 20 skammta á viku) eða æfðu reglulega. Æfingarnar fólust a.m.k. í skokki í einn til þrjá tíma samtals á viku, þolfimi, styrktarþjálfun eða fjögurra tíma garðslætti á viku. Þeir sem borðuðu rautt kjöt oftar en þrisvar í viku voru líklegri til að fitna. Ef það er eitthvað sem má læra af því hvaða áhrif lífsstíll fólks hefur á það hvernig það fitnar, þá er það að mataræði sem samanstendur af miklu grænmeti, litlu af kjöti heldur mönnum grönnum. Vísindamennirnir bentu ennfremur á að þetta mataræði verndaði menn gegn því að fitna á maganum. Gagnvart hjarta- og kransæðasjúkdómum, sykursýki, ristil- og brjóstakrabbameini er hættulegast að fitna á maganum. Þeir sem eru með mikla fitu á maganum eru í meiri hættu gagnvart þessum sjúkdómum en fólk sem fitnar annarsstaðar.

 

Exit mobile version