Site icon Fitness.is

Baráttan við aukakílóin erfið

Margt er reynt til þess að halda aukakílóunum í skefjum þegar aldurinn færist yfir. Flestir fitna þó eitthvað eftir því sem árin líða, sérstaklega á maga og eða rassi eftir því hvort um konur eða karla er að ræða. Það helsta sem gert er til þess að sporna við aukakílóunum er að æfa og borða hitaeiningalítið mataræði. Misjafnlega vel gengur þó að ná árangri og tala þar margir af eigin raun.Eftir því sem rannsóknir hafa komist næst þarf að auka æfingar og hreyfingu til þess að vinna upp hraða efnaskipta sem tapast með aldrinum. Þyngdaraukningin sem á sér stað þegar líða tekur á ævina er því ekki endilega tilkomin vegna þess að fólk sé farið að hreyfa sig minna, heldur er hluti ástæðunnar sá að efnaskipti líkamans hægja á sér með aldrinum. Fólk getur því auðveldlega losað sig við aukakílóin þó komið sé á efri ár, en þá þarf að æfa reglulega og jafnvel oftar en gert var á yngri árum til þess að ná sömu léttingu og þá. Vegna meiri vöðvamassa taka karlar betur við sér heldur en konur þegar þeir byrja að æfa á fullorðinsárum. Kemur það til af því að vöðvamassinn brennir hitaeiningum og því meiri, því meiri brennsla. Þetta kann að hljóma niðurdrepandi fyrir fólk sem er að berjast við aukakílóin en á móti kemur að hægt er að nýta sér þessa þekkingu til þess að ná meiri árangri. Það kann ennfremur að vera auðvelt að varpa fram fullyrðingum um að það sé gott fyrir fullorðið fólk að æfa oft og mikið. Í raunveruleikanum er staðan hinsvegar oft sú að þegar komið er yfir miðjan aldur geta gömul meiðsli, orkuleysi, bakverkir eða annað dregið orkuna úr öllum fyrirætlunum um æfingar. Allir ættu þó að geta fundið leið til að hreyfa sig án teljandi erfiðleika. International Journal of Obesity, 30: 543-551, 2006

Exit mobile version