Site icon Fitness.is

Vel þjálfaðir svitna meira

Flestir halda að þeir einstaklingar sem eru í lélegu formi svitni meira en aðrir. Sannleikurinn er reyndar öfugur. Við álag á líkamann eða við nýja hreyfingu svitnar fólk í meira magni vegna þess hita sem myndast við álagið. Sviti sem ma. inniheldur vatn, sölt og steinefni eins og járn í agnarlitlum skömmtum heldur líkamanum köldum þar sem uppgufun svitans (vatns) er ákaflega orkukrefjandi. Við álag opnast smáæðar í húðinni og draga hita úr stærri æðum miðlægt út í húðina. Hitinn sem kemur út í húðina hitar svitann sem gufar upp og við það kólnar blóðið í æðum í húðinni og fer kaldara til baka til að taka við meiri varma.

Við reglulegt álag lærir svo líkaminn að framkvæma þetta ferli á hagkvæmari hátt og sviti fólks sem hreyfir sig mikið fer að innihalda minna af söltum en ella á hvern lítra svita. Þar sem vatn er mikilvægasta næringarefni líkamans er nauðsynlegt að drekka það mikið vatn, að líkamsþyngdin sé óbreytt eftir álag. Best er að drekka vökva í litlum skömmtum á 10-15 mín fresti og svokallaðir vökvahleðsludrykkir sem innhalda 5-7% sykur geta verið góður kostur fyrir þá sem æfa mikið og með keppni í huga því neysla þeirra leiðir til aukinnar vökvainntöku. Þeir sem eru að megra sig ættu þó að drekka bara vatn því annars brennir líkaminn bara sykrinum úr drykknum en ekki fitu úr vefjum okkar.

Exit mobile version