Site icon Fitness.is

Úrslit Íslandsmótsins í vaxtarrækt

Íslandsmótið í vaxtarrækt fór fram í Sjallanum á Akureyri föstudagskvöldið 6. apríl.. Einnig fóru þar fram Íslandsmótin í módelfitness og fitness kvenna eldri en 35 ára. Úrslit urðu á margan hátt óvænt og fór svo að þakið ætlaði af Sjallanum þegar spennan var sem mest enda var húsfyllir.Óhætt er að segja að spennan hafi verið rafmögnuð áður en úrslit voru kynnt í helstu flokkum. Í undir 80 kg flokki sigraði Gauti Már Rúnarsson frá Ólafsfirði eftir vægast sagt jafna keppni við Sigurð Kjartansson. Sjö dómarar dæma á vaxtarræktarmótum og voru fjórir með Gauta í fyrsta sæti.
Í undir 90 kg flokki varð fljótt ljóst að keppnin um fyrsta sætið stæði á milli Sigurðar Gestssonar og Alfreðs Pálssonar. Sigurður var feiknavel skorinn og vel samræmdur á meðan Alfreð bjó yfir miklum massa en minni skurðum en Sigurður. Alfreð sem líklega er með þykkasta bak Íslandssögunnar skákaði æfingafélaga sínum og vini Sigurði og fór ekki dult með það í verðlaunaafhendingunni að honum leiddist það ekkert sérstaklega.
Þeir Alexander Rafn Gíslason og Valgeir Árnason tókust á í unglingaflokki en þar var mjög jöfn barátta með þeim tveimur. Þeir komu báðir vel undirbúnir til keppni.
Í undir 100 kg flokki mættust þungavigtarkapparnir. Lítill vafi lék á að Magnús Bess ætti fyrsta sætið en hinsvegar voru aðrir keppendur ákaflega jafnir. Annað til fjórða sæti var mjög óráðið og hefur sjaldan verið úr jafn vöndu að ráða. Einungis munaði sjö stigum á öðru til fjórða sæti og gátu úrslit þeirra sæta því fallið hvernig sem er.
Einungis tveir keppendur voru í flokki kvenna í vaxtarrækt. Hrönn Sigurðardóttir sýndi frábæra takta í frjálsu stöðunum og hefur greinilega bætt sig töluvert síðustu mánuði. Hrönn sem er fremst meðal jafningja þegar að því kemur að semja frjálsar stöður uppskar mikil fagnaðarlæti þegar hún hafði sýnt æfingar sínar enda er hún í sérflokki hvað sviðsframkomu varðar.
Vaxtarrækt 1. Valgeir Árnason (5+7+5=17) 2. Alexander Rafn Gíslason (10+8+10=28) Vaxtarrækt -80 kg flokkur 1. Gauti Már Rúnarsson (7+5+7=19) 2. Sigurður J. Kjartansson (8+10+8=26) 3. Reynir Guðmundsson (15+15+15=45) 4-5. Róbert Fannar Halldórsson 4-5. Ari Valgeirsson Vaxtarrækt -90 kg flokkur 1. Alfreð Pálsson (6+5+7=18) 2. Sigurður Gestsson (9+10+8=27) 3. Svavar Smárason (15+15+15=45) 4-6. Smári Valgarðsson 4-6. Stefán Þór Hafsteinsson 4-6. Stefán Þór Arnarsson Vaxtarrækt -100 kg flokkur 1. Magnús Bess Júlíusson (5+5+5=15) 2. Garðar Ómarsson (13+14+15=42) 3. Smári Kristinn Harðarsson (17+11+15=43) 4-5. Þór Harðarsson (16+19+14+=49) Vaxtarrækt 40 ára og eldri 1. Sigurður Gestsson (7+7+7=21) 2. Smári Kristinn Harðarsson (8+9+8=25) 3. Reynir Guðmundsson (15+15+15=45) Vaxtarrækt kvenna 1. Hrönn Sigurðardóttir (5+5+5=15) 2. Elín María Leósdóttir (10+10+10=30) Heildarsigurvegari Karla Magnús Bess Júlíusson

Exit mobile version