Site icon Fitness.is

Úrslit Bikarmóts Alþjóðasambands líkamsræktarmanna 2009

Þakið ætlaði af Háskólabíói þegar spennan var sem mest á Bikarmóti Alþjóðasambands Líkamsræktarmanna í fitness og vaxtarrækt. Margir af bestu keppendum landsins kepptu um Bikarmeistaratitilinn.Keppt var í þremur flokkum í fitness kvenna og bikarmeistarar urðu þau Heiðrún Ingrid Hlíðberg sem sigraði í unglingaflokki, Sólveig Thelma Einarsdóttir í flokki undir 163 sm og Rannveig Kramer sem sigraði í yfir 163 sm flokki. Þær þrjár kepptu síðan um Bikarmeistaratitil kvenna í fitness og fór svo að Rannveig sigraði.
Keppt var sömuleiðis í módelfitness kvenna þar sem Sif Sveinsdóttir varð bikarmeistari. Jakob Már Jónharðsson sigraði í fitnessflokki karla og Svavar Smárason sem hélt uppi heiðri vaxtarræktarinnar hampaði bikarmeistaratitlinum. Keppnin um sum verðlaunasætin í fitnessflokkum kvenna var tvísýn. Það kom engum á óvart að spennan var mögnuð þegar samanburður fór fram í yfir 163 sm flokki. Alls kepptu 10 keppendur í þeim flokki. Þar mættust Katrín Eva Auðunsdóttir núverandi Íslandmeistari, Rannveig Kramer sem ekki hefur keppt í töluverðan tíma, Rósa Björg Guðlaugsdóttir sem varð í þriðja sæti á Íslandsmótinu á þessu ári og Björk Varðardóttir svo einhverjir séu nefndir til sögunnar. Skemmst frá að segja voru dómarar einhuga um að fyrsta sætið væri Rannveigar. Hún mætti til keppni í frábæru formi, samræmd og skorin svo heimsmeistaramótum hæfir. Rannveig sem ekki sést oft á sviði kom því eflaust mörgum skemmtilega á óvart. Katrín Eva Auðunsdóttir varð önnur en Björk Varðardóttir sem sýnt hefur miklar framfarir á undanförnum mótum hafnaði í þriðja sæti á eftir Katrínu Evu en Rósa í því fjórða.
Í fitnessflokki kvenna undir 163 sm voru þrír keppendur, þær Eva Lind Ómarsdóttir, Sólveig Thelma Einarsdóttir og Ásdís Þorgilsdóttir. Allar í frábæru formi en Sólveig Thelma sem hefur verið iðin við æfingar að undaförnu og fer að verða hokin af keppnisreynslu hafði betur og hampaði gullinu að lokum, enda í sínu besta formi. Eva Lind varð í öðru sæti en Ásdís í því þriðja.
Unglingaflokkur kvenna í fitness kom á óvart. Þar mættust sex keppendur, hver öðrum betri. Það var ekki á flokknum að sjá að þar færi unglingaflokkur. Heiðrún Ingibjörg Hlíðberg var nokkuð afgerandi sigurvegari með 19 stig. Á eftir henni kom Olga Ósk Ellertsdóttir með 45 stig. Gígja Jónsdóttir varð þriðja með 48 stig.
Hann hampaði loksins gullinu hann Jakob Már Jónharðsson í fitnessflokki karla. Hann hefur eflaust verið feginn sigrinum enda þekkja fáir það jafn vel og hann af raun hvernig það er að lenda í öðru og þriðja sæti. Jakob og Dagur Eyjólfsson voru reyndar ótrúlega jafnir að stigum. Dagur var einungis tveimur stigum á eftir Jakobi en þriðji varð Adam Jónsson. Stemningin var mikil í troðfullum salnum í Háskólabíói þegar hver keppandinn af fætur öðrum kom fram í frjálsum æfingum. Það eru ekki mörg ár síðan reglur breyttust í fitnessflokki karla og þeir tóku að gera frjálsar æfingar við tónlist. Sú lota er fyrst og fremst dæmd út frá framkvæmd en ekki endilega samræmi og vöðvamassa eins og hinar tvær loturnar. Það hefur verið gaman að fylgjast með því hvernig þessi lota verður sífellt fágaðri og skemmtilegri hjá keppendum.
Það voru tveir herramenn sem héldu uppi heiðri vaxtarræktarinnar að þessu sinni. Það voru þeir Svavar Smárason og Grímur Fannar Eiríksson. Báðir í hörkuformi. Sigraði Svavar og varð því bikarmeistari. Svavar sem hefur verið iðinn við æfingar undanfarið var þarna í sínu besta formi.
Myndirnar af módelfitnesskeppendum tók Lárus Sigurðarson (larus.is). Myndir frá mótinu sjálfu eru flestar teknar af Indriða Inga Stefánssyni og Einari Guðmann.

Exit mobile version