Líklegt er að 60% fullorðinna Íslendinga séu yfir æskilegri þyngd og rúmlega 20% með offitusjúkdóm. Þessar tölur fara vaxandi og eru varlega áætlaðar. Matarhefðir eru mismunandi eftir því hvaða menningarheimur á í hlut en þær geta ráðið miklu um það hvort þú verður offitusjúklingur eða ekki.
Ludvig Árni Guðmundsson skrifaði á sínum tíma pistil í Læknablaðinu þar sem hann fjallar um offituvandamálið. Hann kemst vel að orði þar sem hann segir:
„Alltof margir láta hjá líða að marka sér stefnu um hvernig þeir ætla að lifa lífinu og lenda því af leið án þess að ætla sér það. Eins og Laó Tse orðaði það. Ef þú ekki veist hvert þú ætlar getur þú lent einhvers staðar annars staðar.“
Við sköpum okkar eigin hefðir og þær ráða miklu um það hvar við endum í lífinu. Offituhlutfall á Ítalíu er innan við 8% en það er rúmlega 20% í Bretlandi. Ítalir borða stærstu máltíð dagsins um miðjan dag en stærsta máltíð dagsins í Bretlandi er kvöldverðurinn. Að hluta til kann þessi hefð að skýra muninn á offitutíðni.
Rannsóknir á bæði mönnum og dýrum sýna að með því að borða flestar hitaeiningarnar yfir miðjan daginn dregur verulega úr líkunum á að verða offitu að bráð. Matmálstímavenjur hafa áhrif á neyslu og þar af leiðandi heilbrigði.
Greina má mælanleg jákvæð áhrif á hjarta, svefn og blóðsykurstjórnun hjá þeim sem borða stærstu máltíðirnar yfir miðjan daginn. Þeir sem borða flestar hitaeiningarnar á kvöldin eru með hæsta líkamsþyngdarstuðulinn (BMI).
Það hentar ekki öllum að borða yfir miðjan daginn. Vinnutími ræður þar miklu, en einnig aðgengi að mat á þeim tíma, verðlagning og venjur fjölskyldu eða vina. Enn fremur eiga margir erfitt með að breyta rótgrónum venjum. Menningarhefðir hafa þannig áhrif sem orsakavaldur offitu.
Æskilegt væri að borða ekki mikið síðar en klukkan fimm seinnipart dags og drekka aðallega vatn eftir það. Það myndi hjálpa mikið. Þeir sem falla í offituflokk eiga það margir sameiginlegt að borða mikið á kvöldin.
(Journal of Physiology, vefútgáfa 10 mars 2017; Laeknabladid.is/2004/7/nr/1650)