Kraftlyftingamenn þekkja það vel að miklar þolæfingar eru ekki heppilegar þegar ætlunin er að hámarka styrk. Það þarf því ekki endilega vísindamenn til þess að segja vönum mönnum að þetta tvennt fer ekki endilega vel saman ef markmiðið er hámarksstyrkur. Jakob Wilson við Háskólann í Tampa og félagar skoðaði niðurstöður 21 rannsóknar sem snéru að áhrifum þolæfinga á æfingakerfi fyrir styrk. Hlaup reyndust hafa meiri truflunaráhrif á styrk en hjólreiðar. Ef miklum hlaupum var blandað við styrktaræfingar urðu framfarir í styrk 50% minni en ef einungis styrktaræfingar voru stundaðar. Ef markmiðið var að brenna aukakílóum reyndist hinsvegar vel að blanda saman hlaupum og styrktaræfingum. Eftir því sem hlaupin urðu ákafari og umfangsmeiri urðu framfarir í styrk minni. Sé ætlunin að byggja fyrst og fremst upp styrk og bæta á sig vöðvamassa þarf að forðast að hlaupa mikið.
(Journal Strength and Conditioning Research, 26: 2293-2307, 2012)