Site icon Fitness.is

Þol- og styrktaræfingar eiga ekki samleið

Líkaminn bregst við æfingum með því að aðlagast álaginu. Gildir þar einu hvort um er að ræða þol- eða styrktaræfingar. Vöðvafruman stækkar einfaldlega til þess að reyna að þola álagið sem á hana er lagt og sé um þolæfingar að ræða stækkar svonefnt hvatberasvæði í frumunni sem geymir orku.

Nýleg endurskoðun rannsókna sem framkvæmd var af John Hawley í Ástralíu sýndi fram á að þessar tvær æfingaaðferðir, þolæfingar annarsvegar og styrktaræfingar hinsvegar veldur röskun í aðlögun líkamans ef þeim er blandað saman. Átakamiklar lóðaæfingar sem byggjast á vöðvasamdrætti styrkja vöðvana eins og áður sagði. Þegar álagið er minna en langvarandi eins og þegar hlaupið er eða hjólað þarf vöðvafruman að stækka hvatberasvæðið til þess að ná að bregðast við álaginu.
 
Þolæfingar ræsa svokallað lífeðlisfræðilegt efnaskiptaferli sem miðar að því að mynda meira þol. Þetta efnaskiptaferli er á máli vísindamanna kallað AMPK-PGC-1alpha og það hefur þau áhrif að draga úr öðru efnaskiptaferli sem tengist vöðvauppbyggingu. Það ferli kalla vísindamenn Akt-mTOR-S6K. Hið öfuga gerist þegar styrktaræfingar eru gerðar. Þá dregur úr virkni þess efnaskiptaferlis sem hefur með þoluppbyggingu að gera.
Samkvæmt þessu virðist ekki vera ráðlegt að æfa styrktar- og þolæfingar um of á sama tíma, t.d. styrktarþjálfun og þolæfingar strax á eftir. Best er að stunda þessar æfingar í sitthvoru lagi, annað hvort að skipta þeim á milli kvölds og morgna eða daga. Ef til vill hefur þetta mest að segja fyrir vaxtarræktarmenn sem eru að stefna á hámarks- vöðvauppbyggingu og skiptir kannski minna máli fyrir flesta þá sem stunda æfingastöðvarnar fyrst og fremst til þess að ná af sér aukakílóunum. Það er hinsvegar mikilvægt að vaxtarræktarmenn, kraftlyftingamenn og þeir sem vilja ná sérstaklega góðu þoli átti sig á þessu samhengi.
 
Í ljósi þessa væri ráðlegt að gera t.d. þolæfingar á morgnana og styrktaræfingar á kvöldin eða öfugt. Allt eftir því hvað hentar þér. Þó að þessi vitneskja sé mikilvæg ber að sjálfsögðu að varast að sleppa upphitun fyrir styrktaræfingar. Það að taka tíu mínútna upphitun á hlaupabretti áður en farið er í styrktaræfingarnar er að sjálfsögðu mikilvægt sem fyrr.
 
(Applied Physiology Nutrition Metabolism, 34: 355-361, 2009)
Exit mobile version