Site icon Fitness.is

Sykuriðnaðurinn styrkti rannsóknir til að draga úr neikvæðri umfjöllun um sykur

Hneyksli skekur vísindaheiminn

Það er ekki lengur leyndarmál að matvælaiðnaðurinn hefur séð sér hag í að styrkja rannsóknir í gegnum tíðina sem nær undantekningalaust hefur leitt af sér eitthvað jákvætt fyrir þá. Þetta er algeng aðferð sem hefur ekki eingöngu verið notuð af tóbaksframleiðendum heldur líka framleiðendum á súkkulaði, morgunkorni og fleiri vörutegundum sem telja hag sínum borgið í að losna við neikvæða umfjöllun. Tilgangurinn er að fá jákvæðar fyrirsagnir í blöðum sem ýta undir sölu og neyslu. Nýlega uppgötvuðust 50 ára gömul skjöl sem sýna fram á að þetta hefur verið viðtekin venja hjá sykuriðnaðinum í áratugi sem þjónaði þeim tilgangi að hafa áhrif á rannsóknir þannig að þær geri lítið úr þætti sykurs í þróun hjartasjúkdóma.

Á sjöunda áratugnum fór þeim fjölgandi sem fjölluðu um skaðsemi sykurs og þátt hans í myndun hjartasjúkdóma. Vísindamaður við Háskólann í San Francisco sýndi nýverið fram á að þá hefði sykuriðnaðurinn barist gegn þessum skoðunum með ýmsum hætti. Vísindamenn sem unnu að þessum rannsóknum fengu greiðslur frá Sugar Research Foundation stofnuninni sem í dag heitir einfaldlega Sugar Association og í stað þess að fjalla um þátt sykurs í hjartasjúkdómum bentu þeir á fitu sem sökudólg.

Ofangreindar fullyrðingar voru birtar í JAMA Internal Medicine blaðinu. Samkvæmt þeim var rannsókn frá árinu 1967 sem fjallaði um áhrif sykurs á heilsuna styrkt af Sugar Research Foundation (SRF) þar sem vísindamennirnir við Harvardháskóla fengu hver um sig 50.000 dollara fyrir að kenna mettuðum fitum um kransæðasjúkdóma og gera lítið úr þætti sykurs. Skjölin sýna fram á að SRF hafði áhrif á vísindalegar rannsóknir allt aftur til ársins 1962 með því að styrkja þær með beinum hætti, stjórna þeim og fara jafnvel yfir niðurstöðurnar áður en þær voru birtar í New England Journal of Medicine sem er eitt virtasta vísindaritið á þessu sviði.

Við skoðun á skjölunum frá 1967 kom ennfremur í ljós að vísindamennirnir sem höfðu fengið greiðslur frá sykuriðnaðinum voru mun gagnrýnni á rannsóknir sem bendluðu sykur við hjartasjúkdóma en þær rannsóknir sem bentu á kólesteról og fitu.

Marion Nestle sem er prófessor í næringarfræði og heilbrigðisvísindum við Háskólann í New York segir í umfjöllun sinni um þessi gömlu skjöl að enginn vafi leiki á þætti sykuriðnaðarins í því að hafa áhrif á rannsóknirnar. Þar segir hann: „skjölin sýna svo ekki leikur á því nokkur vafi að tilgangur iðnaðarins með því að styrkja rannsóknirnar var fyrst og fremst sá að hafa áhrif á niðurstöðurnar. Vísindamennirnir vissu hvað það var sem þeir sem fjármögnuðu rannsóknirnar vildu og einfaldlega bjuggu til þær niðurstöður.“ Prófessorinn lætur ekki duga að varpa þessu fram heldur bendir á að þessi iðkun sé langt frá því að vera liðin undir lok.  „Er virkilega satt að matvælafyrirtækin reyni viljandi að hafa áhrif á rannsóknir sér í hag? Já, það er þannig og viðgengst enn þann dag í dag.“
Á tímum samfélagsmiðla eiga hagsmunaaðilar erfiðara með að bæla niður neikvæða umræðu og ekki er lengur eins auðvelt og áður að hafa áhrif á umfjöllun fjölmiðla. Þegar þú lest næst um undraverðar heilsuvörur sem öllu eiga að bjarga skaltu velta fyrir þér hver það er sem styrkir rannsóknirnar. Í blöðum eins og Fitnessfréttum er oft fjallað um rannsóknir úr ýmsum áttum sem sumar lofa eða lasta hinar ýmsu fæðutegundir eða fæðubótarefni. Reynt er að sía mesta ruglið frá en í ljósi þess að á heimsvísu eru risastórar rannsóknir enn þann dag í dag styrktar af matvæla- og lyfjafyrirtækjum er góð regla að lesa allt með tortryggni að leiðarljósi. Hagsmunaöflin munu seint hætta að reyna að hafa áhrif á hvað þú kaupir.
(The Guardian – theguardian.com, 12 september 2016)

Exit mobile version