Konur hafa í auknum mæli byrjað að stunda styrktarþjálfun í samanburði við það sem tíðkaðist fyrir einum til tveimur áratugum. Ranghugmyndir um gildi styrktarþjálfunar fyrir konur voru miklar fyrstu árin sem líkamsræktarstöðvar fóru að höfða til almennings. Í dag hafa þessar ranghugmyndir að mestu vikið fyrir aukinni þekkingu á gildi styrktarþjálfunar. Enn heyrast þó raddir um að styrktarþjálfun henti ekki konum. Þessar raddir tilheyra ekki marktækum.
Fjöldi kvenna stundar þrektæki og þrekþjálfun af ýmsu tagi í þeim tilgangi að brenna fitu. Það er vel. Það má hins vegar ekki gleyma að þrekþjálfun byggir ekki endilega upp fallegar línur né mótaða vöðva af sömu skilvirkni og styrktarþjálfun.
Rugl #1: Konur verða búttaðar ef þær lyfta lóðum
Það er stór misskilningur að konur verði búttaðri og stærri um sig, verði karlmannlegar og missi kvenleikann. Satt að segja eru konur lengi að ná miklum vöðvamassa og oftast verður vöðvamassinn frekar til þess að styrkja og móta vöxtinn til hins betra. Konur sem æfa fyrir vaxtarræktar- og fitnessmót eru ekki endilega dæmigerðar. Að baki þeim ýkta vexti sem einkennir vaxtarræktarkonur liggja mörg ár í stífri þjálfun og hugsanlega misjöfn meðul. Kona sem mætir í ræktina til að styrkja sig þarf ekki að bera sig saman við ýktustu tilfellin.
Rugl #2: Styrktarþjálfun gerir konur stórar og þungar
Það að konur verði miklar um sig vegna styrktarþjálfunar er misskilningur sem byggir á sömu fáfræði og rugl #1. Sannleikurinn er sá að styrktarþjálfun brennir fitu og eykur hreinan fitulausan vöðvamassa. Vöðvamassi eykur grunnefnaskipti. Vöðvar eru þyngri en fita og því getur vöxturinn orðið nettari og honum fylgt smávægileg þynging. Vöxturinn verður hinsvegar álitlegri. Það eru helst konur sem hafa erfðatengda tilhneygingu til að stækka sem gætu séð mun á umfangi útlima.
Rugl #3: Konur ná ekki miklum árangri í styrktarþjálfun
Konur eru vöðvaminni og nettari en karlmenn. Ein helsta ástæða þess er testósterónhormónið sem er ríkjandi hjá karlmönnum. Að meðaltali eru karlar með stærri og sterkari vöðva en konur. Það er hinsvegar stór misskilningur að konur hafi lítið gagn af styrktarþjálfun. Þær eru að jafnaði minni um sig en karlar sem þýðir að þrátt fyrir að vöðvamassi karla sé meiri en kvenna og geta karla til að lyfta ákveðnum kílóatölum sé meiri, þá eru konur hlutfallslega jafn sterkar og karlar.
Rugl #4: Konur mega ekki æfa eins og karlmenn
Einhverra hluta vegna er tilhneiging til að vísa konum á að æfa í vélum vegna ótta við meiðsli þegar notuð eru laus lóð og stangir. Staðreyndin er sú að ekkert bendir til að konum sé hættara við meiðslum en körlum. Hinar öflugu Crossfit-konur eru gott dæmi. Þegar upp er staðið skiptir rétt tækni í æfingum máli til að forðast meiðsli og þar skiptir kynið engu máli.
Rugl #5: Konur eiga ekki að æfa af kappi með þung lóð
Konur eru fremur en karlar hvattar til að æfa með léttum lóðum og taka frekar fleiri lyftur en að þyngja lóðin. Það gilda hinsvegar sömu lögmál um framfarir hjá konum og körlum. Vöðvar stækka einungis vegna álags sem þeir eru að reyna að aðlagast. Ef álagið er ekki mikið hafa þeir enga ástæðu til að stækka né styrkjast. Konur þurfa því eins og karlar að æfa af krafti sem neyðir vöðvana, beinin, taugarnar, sinarnar og liðamótin til að styrkjast og aðlagast álaginu. Konur ættu því annað slagið að taka þyngdir sem eru nálægt hámarksgetu.
Rugl #6: Misskilningur um pumpaða vöðva
Tilfinningin sem fylgir því þegar vöðvar pumpast upp og þrútna út er dásamleg. Því miður er „pumpið“ stundum rangtúlkað sem óæskileg stækkun eða þrútnun. Þetta ástand varir hinsvegar ekki lengi og stafar af því að blóð safnast saman í vöðvana vegna álags. Eftir stutta hvíld líður „pumpið“ hjá og vöðvarnir ná eðlilegri stærð. Hreinn vöðvamassi er minni um sig en fitumassi og þegar árin líða og þjálfunin skilar sér verður hinn hóflegi vöðvamassi til þess að vöxturinn virðist nettari og áferðarfallegri en fyrri vaxtarlausi fituvöxturinn.