Site icon Fitness.is

Ofþjálfun stöðvar árangur

Ofþjálfun er ósamræmi á milli þjálfunar og hvíldar. Ef þessa ósamræmis gætir til lengri tíma geta afleiðingarnar verið minni árangur, meiðsli, lakara ónæmiskerfi og jafnvel þunglyndi.Oftast nær er ofþjálfun einungis vandamál í keppnisíþróttum og er gjarnan fylgifiskur þeirra. Það getur reynst keppendum og þjálfurum þeirra vandrötuð leið að þræða þann mjóa stíg sem liggur á milli æfinga sem leiða til ofþjálfunar og æfinga sem leiða til hámarks-árangurs. Erfiðleikastig æfingaáætlana þarf að vera það hátt að æfingarnar auki þol og þrótt en hvíldin þess á milli næg til þess að leyfa líkamanum að hvílast og byggja sig upp. Ofþjálfun er erfitt að mæla. Hún sýnir sig hinsvegar með ýmsum einkennum. Helstu einkenni eru meiðsli sem endurtaka sig vegna álags, afturför í æfingum eða keppni, ör hvíldarpúls, minni testósterónframleiðsla líkamans, tíð veikindi, þunglyndi eða óeðlileg hegðun. Allt eru þetta einkenni sem geta komið fram við ofþjálfun og ekki þykir líklegt að allir sem komnir eru í ofþjálfun upplifi þau öll. Persónubundið er hvernig ofþjálfun birtist í einstaklingum og þarf því hver og einn að gera sér grein fyrir því hvenær þessari hárfínu línu er náð á milli ofþjálfunar og hvíldar. Það að komast í hörkugott form, hvort sem það er vegna keppni eða líkamsræktar krefst mikilla æfinga og erfiðis. Ofþjálfun er hinsvegar ávísun á afturför og mistök. Heimild: ACSM Health and Fitness fréttabréfið, 11 (4): 8-12, 2007

Exit mobile version