Site icon Fitness.is

Norðurlandamót IFBB í fitness verður haldið í september

Fitness og vaxtarræktarmót hafa nánast legið niðri frá upphafi Covid-19 faraldursins. Haldin hafa verið örfá mót á síðastliðnu ári, flest á Spáni.

Nú stendur íslenskum keppendum til boða að keppa á Norðurlandamóti IFBB sem haldið verður í Turku í Finnlandi 4-5 september í samfloti með Nordic Fitness Expo sem hefur verið árviss viðburður.

Fjögur atvinnumannakort í boði

Mótið er einstakt tækfæri fyrir íslenska keppendur í fremstu röð. Fjögur atvinnumannakort eru í boði fyrir heildarsigurvegara. Siguvegarar heildarkeppninnar í módelfitness (bikini fitness), fitness kvenna (bodyfitness), sportfitness (Men´s Physique) og fitness karla (Classic Physique) fá atvinnumannakort (Pro-card).

Lengi vel kepptu íslendingar fyrst og fremst á Norðurlandamótum og Evrópumótum. Með árunum tók mótum að fjölga, Evrópumótið hélt sínu en Norðurlandamótið féll í skugga allskonar Grand Prix og Diamond Cup móta.

Hefðin fyrir Norðurlandamótunum endurvakin

Norðurlandameistaratitill hefur líklega meira gildi fyrir keppendur en hinir ýmsu Grand Prix, eða Diamond Cup titlar. Nafnið eitt og sér stendur með sér. Það þarf ekki að útskýra mikið fyrir öfum og ömmum hvað Norðurlandameistaratitill í fitness þýðir. Öðru gildir um þá titla sem fylgja Grand Prix og Diamond Cup mótum.

Hér er því gerð tilraun til að endurvekja Norðurlandamótin og jafnvel fækka öðrum mótum. Einungis norðurlöndin Ísland, Svíþjóð, Finnland, Danmörk og Noregur hafa þátttökurétt. Sömuleiðis er hefð fyrir því hjá IFBB að Eistland fylgi Norðurlöndunum.

Norðurlandamótið er opið fyrir alla keppendur IFBB óháð titlum og fyrri sætaskipan á mótum hér á landi eða erlendis. Ætlunin er að hvetja sem flesta til að taka þátt og því verða þátttökuskilyrðin með sama sniði og tíðkast hefur á Arnold mótunum í Evrópu og Bandaríkjunum. Eina skilyrðið er að keppendur séu samþykktir af sínu landssambandi innan IFBB.  

Keppt verður í helstu flokkum og sérstök athygli skal vakin á að keppt verður í unglingaflokkum í öllum keppnisgreinum.

Vefsíða mótsins er www.ifbbnordic.com

Nokkrar myndir til upprifjunar frá Norðurlandamótinu sem haldið var hér á landi 2014. Myndirnar tók Gyða Henningsdóttir (gyda.is).

Exit mobile version