Site icon Fitness.is

Margrét Gnarr sigraði sitt annað atvinnumannamót

MargretGnarr_PhilHeathClassic001Margrét Gnarr sigraði Phil Heath Classic mótið sem fór fram um helgina í Dallas í Bandaríkjunum. Þetta er annað atvinnumannamótið í fitness sem Margrét sigrar með stuttu millibili en hún sigraði IFBB Legends Pro Classic í lok janúar þar sem hún vann sér inn þátttökurétt á Olympíamótinu í haust. Phil Heath Classic mótið veitir sömuleiðis rétt til að keppa á Olympía mótinu og má því segja að Margrét hafi nú stimplað sig vel inn í efstu raðir þeirra bestu í fitnessheiminum með því að sigra þetta mót líka.

Mætti í mýkra formi og árangurinn eftir því

Margrét Gnarr er með tæplega 300.000 fylgjendur á Facebook síðu sinni sem er líklega einn mesti fjöldi „lækara“ sem íslenskur íþróttamaður hefur þar á bæ ef ekki sá mesti. Hún segir frá því á Facebook síðunni sinni að orð geti ekki lýst því hversu hamingjusöm hún sé með sigurinn. Það var skyndiákvörðun hjá henni að keppa á þessu móti en þegar hún keppti á Arnold Classic um síðustu helgi var hún í full hörðu formi en núna hafi hún náð meiri fyllingu í vöðvana og var mjög ánægð með útkomuna. Árangurinn hafi verið eftir því.

Úrslit Phil Heath Classic Pro – bikini.

1. Margret Gnarr
2. Sara Back
3. Ashley Gaines
4. Catherine Radulic
5. Jessica Renee
6. Aly Garcia
7. Cori Baker
8. Casey Samsel
9. Cassandra Marshall
10. Camile Periat
11. Elisangela Angell
12. Nicole Markovic
13. Kamilah Powell
14. Juliana Halloran
15. Chanan Siglock
16. Jazzmen Canales
16. Vicki Counts

Sigrar Margrétar í samhengi við boltaíþróttir

Fjölmiðlar á Íslandi hafa átt erfitt með að átta sig á umfangi þessara sigra Margrétar. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá er keppni í fitness ein af ekki bara vinsælustu, heldur fjölmennustu keppnisgreinum heims og samanlagðan árangur Margrétar má auðveldlega setja á stall með helstu íþróttaafrekum Íslandssögunnar. Til að setja þetta í samhengi fyrir íþróttafréttamenn sem hafa bara áhuga á boltaíþróttum þá er hún svo sannarlega að spila í meistaradeildinni og stefnir þar á toppinn. Hún er ekki að spila í deild á Íslandi eða á litlu Evrópumóti. Það að vinna sér inn keppnisrétt á Olympía þýðir að það er ekkert hærra markmið eftir það. Að öðrum ólöstuðum eru afskaplega fáir íslenskir íþróttamenn sem geta státað af sömu afrekum og Margrét.

IFBB á Íslandi óskar Margréti til hamingju með árangurinn.

 

Exit mobile version