Site icon Fitness.is

Lyfjafyrirtækin keppast við lausn á offituvandanum

Lyfjafyrirtæki hafa árum saman stefnt að því að markaðssetja lyf sem berst gegn offituvandanum.Offituvandamálið fer vaxandi ár frá ári svo ekki sér fyrir endann á þeirri þróun. Ef fer sem horfir verður fólk í kjörþyngd sjaldgæf sjón í framtíðinni. Kolvetnalítið mataræði, kolvetnamikið mataræði, nálastungur eða skyndilausnir hafa ekki virkað nema í skamman tíma. Af þessum sökum eru allmargir innan lyfjageirans sem eru þeirrar trúar að ekki komi til með að finnast varanleg lausn á offituvandanum nema lyfjafyrirtækjunum takist að koma fram á sjónarsviðið með lyf sem raunverulega virkar. Eins og staðan er í dag hafa þau markaðssett hin ýmsu lyf eins og t.d. Meridia sem á að minnka matarlyst, Xenical sem á að hindra frásog fitu í meltingarveginum og um 20 önnur lyf sem ýmist eiga að örva taugaboðefni (buprobion, topramate, rimonabant), auka saðningartilfinningu (CCK, PYY), örva efnaskiptin eða flýta fyrir því að fita sé notuð sem orkugjafi (vaxtarhormón). Gallinn við öll þessi lyf er að ýmist hafa þau óásættanlegar aukaverkanir eða virka ekki sérlega vel. Þegar upp er staðið er engin töfralausn í formi pillu sem leysir offituvandann. Það eina sem virkar til lengri tíma eru æfingar og yfirvegað mataræði. Þar liggur lausnin á offituvandanum. (Obesity, Res, 12: 1197-1211).

Exit mobile version