Site icon Fitness.is

Laus lóð auka hormónaframleiðslu líkamans meira en æfingatæki

Laus lóð og vélar eru sitthvor hluturinn þó sami vöðvinn sé æfður.

Það er að verða sígilt umræðuefni hvort æskilegra sé að æfa í æfingatækjum eða nota laus lóð. Hér áður fyrr voru fyrst og fremst laus lóð í æfingastöðvum en þegar almenningur tók að stunda æfingastöðvarnar af kappi vildu eigendur æfingastöðva frekar æfingatæki vegna öryggissjónarmiða. Hagnaðarsjónarmið kunna einnig að hafa ráðið nokkru um þessa þróun.

Í fljótu bragði virðist hnébeygjan og fótapressan svipaðar æfingar. Á þessum æfingum er hinsvegar risastór munur. Hnébeygjan byggist á lokaðri hreyfiorku (closed chain kinetic) en fótapressan á opinni hreyfiorku (open chain kinetic). Með lokaðri hreyfiorku er átt við að annað hvort neðri eða efri hluti líkamans snertir gólfið í hreyfingunni.

Lyftingar með lausum lóðum byggjast á því að hryggurinn haldi jafnvægi – sem eykur álagið vegna æfingarinnar. Æfingar með lausum lóðum koma einnig af stað meiri taugatengdum hormónaviðbrögðum í líkamanum samkvæmt rannsókn Aaron Shaner og Disa Hatfield.

Aukin hormónaviðbrögð líkamans við æfingum með laus lóð virðast auka nýmyndun vöðva og efla styrk meira en tæki. Vísindamennirnir sýndu fram á að framleiðsla líkamans á testósteróni og vaxtarhormónum var meiri eftir hnébeygjuæfingar en fótapressu. Engu skipti þó upplifun þeirra sem æfðu á álaginu virtist svipuð.

Samkvæmt niðurstöðum þeirra félaga má ætla að hormónaviðbrögð líkamans séu meiri þegar stórir vöðvahópar í neðri hluta líkamans eru æfðir með lausum lóðum í samanburði við æfingar í tækjum.
(Journal Strength Conditioning Research)

Exit mobile version