Site icon Fitness.is

Kreatín flýtir fyrir því að vöðvar jafni sig eftir ofurlyftur

Af þeim aragrúa bætiefna sem stendur líkamsræktarfólki til boða er ljóst að kreatín hefur sannað sig og er ákjósanlegt fyrir þá sem stunda styrktaræfingar. Skiptir litlu hvort það er hinn almenni áhugamaður um eigin líkamsrækt, harðsvíraður vaxtarræktarmaður eða bólginn kraftlyftingamaður.

Kreatín eykur einfaldlega styrk og vöðvamassa. Það flýtir einnig verulega fyrir bata eftir sérstaklega erfiðar æfingar.
 
Áströlsk rannsókn sem gerð var af Matthew Cooke sýndi fram á að kreatín flýtir fyrir því að vöðvar jafni sig eftir sérstaklega erfiðar ofurlyftur. Ofurlyftur kallast það þegar viðkomandi tekur meiri þyngd en hann ræður við einu sinni og þá er yfirleitt ekki verið að lyfta, heldur láta síga niður eða rétta úr, allt eftir því hver æfingin er. Í rannsókninni var miðað við að taka 4 sett og 10 endurtekningar af ofurlyftum þar sem þyngdin var 120% af hámarksþyngdinni sem viðkomandi ræður við eina endurtekningu. Æfingarnar voru fótapressa, fótabekkur fyrir framan og fótabekkur fyrir aftan. Tekið skal fram að þessi æfingaáætlun gekk út á að valda miklum strengjum og jafnvel vöðvaskemmdum. Allt er gert í rannsóknarskini.
 
Eftir þessar ofur-æfingar voru þeir sem tóku kreatín með 10-21% meiri vöðvastyrk þegar þeir tóku að jafna sig heldur en þeir sem fengu lyfleysu (plat-kreatín). Með því að mæla magn kreatín-kínasa í blóðinu (heiti ensíma sem hvata tilfærslu fosfathópa milli sameinda) er hægt að meta umfang vöðvaskemmda. Þeir sem tóku kreatín mældust 84% lægri en þeir sem fengu lyfleysuna. Miðað við þessar niðurstöður er kreatín því góður kostur þegar vöðvar þurfa að jafna sig eftir mikið álag.
 
(Journal of the International Society of Sports Nutrition, 6: 13, 2009: vefútgáfa)
Exit mobile version