Hvað dómgæslu varðar eru svolítið aðrar áherslur í formfitness heldur en íþróttafitness að því leiti að ekki eru gerðar jafn miklar kröfur um skurði og dómarar eru frekar að leita að samræmi í formi og áhersla er lögð á útlínur og fegurð keppanda. Vöðvamassi má ekki vera of mikill, en engu að síður eru dómarar ekki að leita að fallegum náttúrulegum vexti, heldur öllu frekar fallegum áunnum vexti sem tilkominn er vegna þjálfunar og æfinga. Sif Garðarsdóttir sem sigraði í formfitness mætti til keppni vel undirbúin eftir að hafa tekið sér árs hlé frá keppni vegna barneigna. Sif hefur aldrei verið í jafn góðu formi og á Íslandsmótinu og er vel að því komin að vera fyrsti Íslandsmeistarinn í formfitness. Fyrirfram voru vangaveltur á milli dómara um áherslu á vöðvamassa í dómgæslunni og vissulega er Sif komin á brún þess sem þolanlegt er hvað vöðvamassa snertir í formfitness. Sérstaklega eru axlirnar á henni orðnar miklar. Hinsvegar verður að hafa í huga að hérlendis hefur fram til þessa ekki verið til neitt sem kallast getur of mikill vöðvamassi, né of miklir skurðir í fitnesskeppnum þegar erlendir staðlar eru hafðir til hliðsjónar.
Allir keppendur í karlaflokki voru vel undirbúnir og röðun í efstu sætin í samanburði var engan vegin augljós. Sigurbjörn Ingi Guðmundsson hefur líklega aldrei verið í betra formi og var vel undirbúinn en fékk keppni úr óvæntri átt. Þar kom til Sigurður Örn Sigurðsson sem var að keppa í fyrsta skipti og einnig var Bjarni Steinar Kárason í toppbaráttunni. Sigurbirni gekk vel í æfingunum og hafði því sigur að lokum enda sigrar gjarnan sá sem stendur sig best að meðaltali í öllum æfingunum.