Site icon Fitness.is

Hvort er betra að taka þol- eða styrktaræfingar á undan?

Það fer eftir því á hvað þú vilt leggja áherslu hvort það borgi sig að taka þolæfingar á undan eða eftir styrktaræfingum. Það að leggja ofuráherslu á einn þátt á kostnað hins er nokkuð sem þeir sem æfa fyrst og fremst styrktaræfingar og taka lítið af þolæfingum þurfa að huga að. Flest okkar æfa vonandi ekki bara til þess að bæta útlitið, heldur einnig hreysti og heilsu. Styrktarþjálfun ein og sér getur haft í för með sér skammtíma og langtíma áhættu fyrir heilbrigði hjarta- og kransæðakerfisins. Styrktaræfingar geta valdið skammtíma stífleika í æðum sem aftur getur valdið hækkun á blóþrýstingi sem aftur veldur auknu álagi á hjartað til lengri tíma litið.
Besta leiðin til að draga úr neikvæðum áhrifum einhæfra styrktaræfinga á hjarta- og æðakerfið er að gera þolæfingar strax á eftir styrktaræfingunum. Það dregur vissulega úr gildi styrktaræfingana eins og áður hefur komið fram, en heilbrigði æðakerfisins verður betra.  Þolæfingarnar geta falist í því að fara á hlaupabretti, hjóla eða ganga rösklega í 15 – 60 mínútur strax á eftir styrktaræfingunum. Styrktar- og þolæfingar eru góð blanda og gera okkur gott, sérstaklega ef þær eru gerðar í réttri röð. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt að æfingakerfi þurfa að taka tillit til þess hverju er verið að sækjast eftir. Ef þú vilt leggja áherslu á að ná upp góðu þoli þarftu að taka þolæfingarnar fyrst og styrktaræfingarnar á eftir. Sömuleiðis ættirðu að taka styrktaræfingar á undan þolæfingum ef þú vilt leggja áherslu á uppbyggingu og styrktaraukningu.
(ACSM Health & Fitness Journal, 18 (1): 9-14, 2014)

Exit mobile version