Site icon Fitness.is

Hráefni í plasti gerir karla kvenlega

Í september á síðasta ári var efnið BPA (Bisphenol A) sett á lista yfir eitruð efni í Kanada. Evrópubandalagið er sömuleiðis búið að banna notkun þess í plastflöskur sem framleiddar eru fyrir börn. Um er að ræða efni sem notað er til plastgerðar og lengi hefur legið fyrir (síðan 1930) að efnið hefur svipaða eiginleika og estrógen kvenhormónið. BPA truflar hormónastarfsemi líkamans og hefur áhrif á svonefnda hormónaviðtaka. Síðan árið 2008 hafa sífellt fleiri greinar verið skrifaðar sem vara við BPA og nú eru leiddar líkur að því að efnið valdi offitu og dragi úr testósterónframleiðslu karlmanna. Gerðar hafa verið rannsóknir, bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi undir forystu Tamara Galloway sem sýna fram á tengsl efnissins við lágar testósterónmælingar og aukið magn BPA í þvagi karlmanna. Rannsakaðir voru 715 karlmenn, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Þeir sem mældust með mest BPA í þvagi voru sömuleiðis með lægsta testósterónmagnið. Veruleg vitundarvakning er að eiga sér stað varðandi hættuna sem stafar af BPA enda alvarlegt þegar efni sem þetta hefur áhrif á hormónastarfsemi líkamans. Hormón hafa víðtæk áhrif á okkur mannfólkið með áhrifum sínum á matarlyst, kyngetu og þar af leiðandi þyngdarstjórnun.

(Environmental Health Perspectives, vefútgáfa, 28. ágúst, 2010)

Exit mobile version