Ýmsar opinberar stofnanir hafa mælt með minnst 150 mínútna löngum æfingum á viku til að stuðla að góðri heilsu. Hinsvegar geta styttri æfingar skilað mælanlegum árangri til betri heilsu ef átökin eru nægilega mikil. Skorpuæfingar (HIIT) sem byggjast á stuttum átökum með miklum sprengikrafti og hvíldum þess á milli geta bætt þol og haft sömu jákvæðu áhrifin á áhættuþætti fyrir hjartasjúkdómum og hefðbundin þolfimi. Catia Martins og félagar við Vísinda- og tækniháskólann í Noregi gerðu 12 vikna rannsókn sem leiddi í ljós að skorpuæfingar breyttu vöðva- og fituhlutfalli líkamans jafn mikið og þolfimi. Styttri útgáfa af skorpuæfingum reyndist einnig skila sömu jákvæðu áhrifunum á áhættuþætti gagnvart hjartasjúkdómum og mun umfangsmeiri æfingakerfi. Skorpuæfingar virðast skila töluverðum árangri hjá í það minnsta byrjendum en þar er lykillinn að árangri að taka rækilega á.
(International Journal Sports Nutrition Exercise Metabolism, 26: 197-204, 2016)