Site icon Fitness.is

Hnébeygjur og kúlurass

Hnébeygjur eru án efa ein besta alhliða æfingin sem hægt er að gera. Konur vilja kúlurass og tæplega er hægt að finna betri æfingu til þess hlutverks. Þeir sem æfa hnébeygjur af krafti eru auk þess ekki einungis með kraftmikla fótleggi, heldur búa þeir yfir miklum heildarkrafti. Fyrir utan augljós áhrif á fætur, taka hnébeygjur á bakið, magann og það sem virðist skila heildarstyrk er að til þess að geta tekið þungar hnébeygjur þarf mikla spennu í allan líkamann. Þegar vaxtarræktarmenn eru annars vegar er hægt að þekkja úr þá sem hafa verið duglegir við hnébeygjurekkann. Þeir eru með heildrænni byggingu en aðrir og eru oftast nær sterkir á öllum sviðum.
Menn þurfa þó alls ekki endilega að taka hnébeygjur með miklum þyngdum til þess að fá mikið út úr þessari æfingu. Hægt er að gera hnébeygjur án lóða og ná samt sem áður árangri. Stattu með fæturnar í rúmlega axlabreidd, vísandi svolítið út á við. Lyftu hökunni og horfðu upp á við á einhvern fastan punkt og ekki taka augun af honum til þess að missa ekki jafnvægið. Þannig er einnig auðveldara að halda bakinu beinu. Þú getur rétt úr handleggjunum fyrir framan þig eða sett hendurnar fyrir aftan hnakka. Gerðu það sem þér þykir betra til þess að halda jafnvægi. Fyrir byrjendur getur jafnvel verið gott að halda sér í eitthvað. Beygðu þig síðan niður og einbeittu þér að því að þyngdin leggist á hælana, ekki tærnar. Algengt er að fólk geti ekki beygt sig niður í 90 gráður með góðu móti sökum stífleika, en betra er að fara ekki dýpra en svo að hægt sé að halda bakinu beinu. Reynslan sýnir að þó menn komist ekki djúpt til að byrja með eru menn fljótir að liðkast og fáar æfingar liðka betur upp nárasvæðið en hnébeygjan sé hún gerð rétt. Sé hnébeygjan gerð án lóða borgar sig að gera hana oftar en ella, en ágætt er að byrja á að gera þrjár til fjórar lotur með 12 endurtekningum.

Exit mobile version