Kristján Samúelsson sigraði í öllum greinum í karlaflokki en Guðni Freyr Sigurðsson kom fast á hæla honum. Bjarni S. Kárason hafnaði í þriðja sæti.
Í unglingaflokki hafði Una Dóra Þorbjörnsdóttir sigur í bæði samanburði og hindranabraut og í öðru sæti varð Guðrún Hólmfríður Ólafsdóttir og Sunna Alexandersdóttir varð þriðja.
Jöfn keppni í kvennaflokki
Það sem stendur uppúr eftir Íslandsmótið í fitness er hversu jöfn keppnin var í kvennaflokki. Fyrirfram var svosem búist við harðri keppni, en það að fjórar konur myndu vera á svipuðu róli í keppninni gerði hana mjög spennandi fyrir vikið. Eftir forkeppnina var Anna Bella með forystu í samanburðinum með 19 stig en Heiðrún og Sif jafnar með 21 stig. Allir dómararnir voru með Freyju í fjórða sæti en með góðri frammistöðu í hindranabrautinni hefði hún vel getað skákað þeim efstu.
Heiðrún sem hafði hafnað í þriðja sæti í samanburðinum sýndi á þessu móti sinn besta árangur fram til þessa. Heiðrún sem er fjölhæf íþróttakona sigraði ennfremur í hindranabrautinni með frábærum tíma, enda hefur hún margsinnis sýnt fram á að hún er mjög fær í þrautum sem þessum og á það eflaust að þakka fjölhæfum íþróttabakgrunni. Í raun skar hindranabrautin úr um það hver varð íslandsmeistari kvenna. Ef Sif hefði sigrað Heiðrúnu í hindranabrautinni hefði það dugað henni til sigurs. Munaði 7 sekúndum á þeim stöllum.
Karlar í kröppum dansi
Það var mikill hasar í karlaflokki eins og í kvennaflokki. Kristján Samúelsson byrjaði á því að ná flestum lyftum samtals í upptogi og dýfum, eða 23 upptogum og 48 dýfum. Skammt á eftir honum kom Guðni með 68 samtals, eða 21 upptog og 47 dýfur. Varð því strax ljóst að hörð keppni yrði á milli þeirra. Þeir feðgar Sigurkarl Aðalsteinsson, hárskeri frá Akureyri og Aðalsteinn Sigurkarlsson komu þeim fast á hæla með 66 og 65 lyftur í heildina í æfingunum og var skemmtilegt að fylgjast með því hvernig þeir feðgar tókust á í gegnum keppnina og átti sá gamli oft í vök að verjast – en slapp með skrekkinn.
Þeir Kristján og Guðni héldu forystustrikinu í hindranabrautinni og ætlaði þakið af Íþróttahöllinni þegar þeir fóru hlið við hlið í gegnum hindranabrautina. Fór svo að Kristján náði tveggja sekúndna betri tíma en Guðni. Sekúndu þar á eftir kom Bjarni S. Kárason.
Lítill munur var á Kristjáni og Guðna í samanburði, enda báðir vel skornir og komu greinilega vel undirbúnir til leiks. Engu að síður voru dómarar samdóma um röð fjögurra efstu keppendana. Ber það dómgæslunni nokkuð gott vitni að dómarar skuli vera jafn sammála og raun ber vitni, bæði í karla og kvennaflokki.
Þórarinn Traustason sem þarna var að keppa í fyrsta skipti á Íslandsmótinu kom sterkur inn í samanburðinn, var vel undirbúinn og skorinn og hafnaði í þriðja sæti í samanburðinum. Æfingarnar höfðu reynst honum erfiðar og virtist þar helst skorta á tæknilegu hliðina. Er nokkuð ljóst að slök frammistaða í æfingunum kostuðu hann þriðja sætið á mótinu.
Þeir tvíburar, Bjarni og Hjalti Kárasynir komu báðir vel undirbúnir til leiks og kom góð frammistaða Bjarna í æfingum og hindranabraut honum í þriðja sætið. Í samanburði urðu þeir bræður í fjórða og fimmta sæti og hafði þar Bjarni betur.
Flottur unglingaflokkur
Keppt var í fyrsta skipti í unglingaflokki kvenna á Íslandsmótinu í fitness. Voru fimm keppendur mættir til leiks og var stórskemmtilegt að sjá hversu öfluga keppendur við höfum á að skipa meðal ungu kynslóðarinnar. Una Dóra Þorbjörnsdóttir sigraði í unglingaflokknum og kom það ekki mörgum á óvar þar sem hún hefur um árabil keppt við þá fullorðnu og skemmst er að minnast þess að hún sigraði í samanburði á síðasta Íslandsmóti í íþróttafitness og keppti á síðasta heimsmeistaramóti í fitness með góðum árangri.
Í öðru sæti í unglingaflokki varð Guðrún Hólmfríður Ólafsdóttir og þriðja varð Sunna Alexandersdóttir en þær sýndu það báðar að vera mjög efnilegar og bera gott vitni um framtíð þessarar íþróttagreinar.
Fjórir dómarar tóku dómarapróf
Yfirdómari á keppninni var Einar Guðmann, sem jafnframt er alþjóðadómari í fitness og vaxtarrækt hjá IFBB sambandinu. Aðrir dómarar voru Gísli Rafnsson, Sigurður Gestsson, Gunnar Már Borg, Georg Garðarsson, og Ingibjörg Sólrún. Fyrir utan Ingibjörgu Sólrúnu hafa allir þessir dómarar dæmt til margra ára en einnig tóku fjórir dómarar til viðbótar dómarapróf. Strangar reglur gilda um inntöku dómara hjá IFBB og er liðin tíð að dómarar dæmi á Íslandsmóti sem ekki hafa tekið próf áður og sýnt þannig fram á að þeir hafi auga fyrir því leitað er að í fitnesskeppnum. Fyrir þremur árum var tekið upp eftirlitskerfi með dómurum sem virkar þannig að dæmi dómarar óeðlilega á mótum falla þeir sjálfkrafa úr dómnefnd á næsta móti. Erlendis hefur sú stefna verið tekin að sérhæfa sem mest dómara hjá IFBB sambandinu og dæma fæstir bæði í fitness og vaxtarrækt, heldur sérhæfa sig í öðru hvoru.
Átta lyfjapróf á Íslandsmótinu
Tekin voru átta lyfjapróf á Íslandsmótinu. Hjá IFBB sambandinu er ekki leyfilegt að senda keppendur á alþjóðleg mót nema þeir hafi farið í lyfjapróf og ennfremur á að lyfjaprófa sæti sigurvegar á landsmótum. Þrátt fyrir að IFBB fitness sé ekki aðili að ÍSÍ hér á landi, þá er IFBB aðili að Alþjóða Ólympíusambandinu og fer eftir reglum Alþjóða Ólympíunefndarinnar varðandi lyfjapróf. IFBB starfar í 172 löndum og er í tæplega 100 löndum aðili að íþróttasambandi viðkomandi lands. Lyfjanefnd ÍSÍ hefur umsjón með lyfjaprófunum á keppendunum hér á landi og tilkynnir um niðurstöður í þeim. Þess misskilnings hefur gætt í umræðu fjölmiðla að fitnesskeppnir IFBB séu lyfjaprófaðar vegna þess að IFBB fitness sé að reyna að fá inngöngu í ÍSÍ. Forsvarsmenn IFBB fitness hér á landi, þeir Einar Guðmann og Sigurður Gestsson hafa þó ekki inngöngu í ÍSÍ að markmiði heldur fremur það að stuðla að heilbrigðri keppnisíþrótt.
Hugsanlega má rekja samdrátt í keppendafjölda í karlaflokki til þess að keppendur ganga að því vísu að lyfjaprófað sé á Íslandsmótinu, en þó gætir mikillar ánægju meðal flestra keppenda með lyfjaprófin, þar sem þeir vilja taka þátt í hreinni íþrótt.
Gerður verður sjónvarpsþáttur um Íslandsmótið sem sýndur verður innan skamms.
Skjal með úrslitum er að finna hér.
Myndir eru komnar í myndasafnið frá úrslitakeppninni. (Myndataka Myndrún)
(búast má við fleiri myndum úr forkeppninni)