Hásinin eða Akkiles sinin eins og hún kallast oft á erlendum tungumálum er nefnd eftir hetjunni Akkiles úr Grískum goðafræðum. Talið var að líkami hans þyldi hvað sem er nema áverka á sinina og var það á endanum ör sem skotið var í sinina sem dró hann til dauða. Þó áverkar á hásinina dragi fólk nú til dags ekki til dauða eru áverkar á hana algengir sérstaklega hjá körlum komnum af léttasta skeiði sem taka aftur upp hreyfingu sér til heilsubótar. Mikil hlaup í brekkum, á hörðu undirlagi og að byrja skarpt eða auka álagið hratt getur valdið bólgum í sininni.
Ónógar teygjur og styrktaræfingar geta gert sinina veikari en nauðsynlegt er og of mikil líkamsþyngd gerir það sama. Hátt kólesteról, bólgueyðandi steralyf gefin td. við astma og sýklalyf sem kallast flurokínólon en dæmi um það er lyfið Ciprofloxasín (Cíprox, Ciproxin, Síprox ofl.) geta líka valdið bólgu í sininni. Hægt er að greina bólgu og skemmdir á sininni með ómskoðun (sónar) og segulómum auk venjulegrar skoðunar. Venjulega er aðgerðar bara þörf við slit á sininni en ýmsar aðferðir eins og upphækkun á hæl, bólgueyðandi lyf, sjúkraþjálfun eða jafnvel gips allt að 2-3 vikum má nota á vægari einkenni frá sininni. Gipsun og algjöra hvíld verður þó að nota með mikilli varúð vegna hættu á að sinin rýrni. Vegna þess að við langvinn vandamál í hásininni eins og öðrum sinum er oft enga bólgu að finna við nánari skoðun þarf að greina á milli einkenna frá sinaslíðrinu sjálfu sem umlykur sinina sem getur verið bólgið og í sininni þar sem enga bólgu getur verið að finna bara hrörnunarbreytingar í bandvefnum. Sé um langvinnt vandamál að ræða og hrörnunarbreytingar er lítið vit í að sprauta bólgueyðandi steralyfjum í sinina þar sem það veikir hana meira. Rannsóknir á notkun bæði bólgueyðandi lyfja í töfluformi og sprautuformi gegn langvinnum sinavandamálum sýnir oftast ekkert gagn þeirra sem eðlilegt er. Við þjálfun styrkjast líka sinar mun hægar en vöðvar og verður að hafa það í huga við alla þjálfun.
Rafn Líndal, læknir