Site icon Fitness.is

Fornsteinaldarfæðið ekki endilega heppilegt

hellisbuarPaleo-mataræði eða réttu nafni fornsteinaldarfæði hefur fengið ítarlega umfjöllun í fjölmiðlum að undanförnu sem enn ein lausnin á skyndibitalífsstílnum. Kenningin er sú að það sé hollt fyrir nútímamanninn að borða sama mataræði og mannkynið hefur borðað síðustu árþúsundir í þróunarsögunni. Er þá horft til fornsteinaldar áður en maðurinn hóf akuryrkju og landbúnað. Fornsteinaldarfæðið byggðist á að maðurinn var á þessum tíma safnari og veiðimaður sem borðaði það sem gafst hverju sinni en þar á meðal var ekki að finna mjólkurvörur, korn, belgjurtir, unnar olíur eða sykur svo eitthvað sé nefnt.

Mannfræðingar hafa bent á að ómögulegt sé að fullyrða hvernig mataræðið á fornsteinöld var. Hellisbúar borðuðu allt og engin ein fæðutegund var ráðandi í mataræðinu. Það er ráðgáta hvers vegna fornsteinaldarfæðið á að vera heppilegra en nútímafæði. Meðalaldur manna á þessum tíma er talinn hafa verið um 25 ár þó einstaka menn hafi orðið eldri. Krufningar á múmíum benda til að æðakölkun hafi verið nokkuð algeng á þeim tíma eins og í dag. Mataræðið byggðist á því að lifa af og geta fjölgað sér en stuðlaði ekki endilega að langlífi. Ennfremur er erfitt að bera saman þær fæðutegundir sem eru í boði í dag og þær sem aðgengilegar voru á fornsteinöld. Ávextirnir sem við erum vön í dag eru gott dæmi. Þeir hafa náð útbreiðslu vegna eiginleika sem við höfum kosið að rækta og eru því mjög ólíkir því sem var í boði á fornsteinöld.

Mannsævin er mun lengri í dag en þekktist á fornsteinöld og við þurfum að takast á við lífsstílstengda sjúkdóma þegar komið er fram á efri ár. Við vitum í dag að margir þessara sjúkdóma eru tilkomnir vegna mataræðisins. Á fornsteinöld var þetta ekki endilega vandamál. Menn voru löngu dauðir.
(The Quarterly Review of Biology, vefútgáfa í desember 2014)

Exit mobile version