Í eplum er ursolicsýra sem einnig er að finna í trönuberjum, basilíkum, oregano og sveskjum. Hún er til ýmissa hluta nytsamleg, er meðal annars notuð í snyrtivörur og getur hamlað vexti krabbameinsfrumna. Samkvæmt niðurstöðum kínverskrar rannsóknar stuðlaði ursolicsýran að léttingu, jók orkubrennslu líkamans og dró úr fitu í vöðvum. Hún er talin auka orkubrennslu með því að efla virkni aftengingarprótína í frumum sem veldur hitamyndun. Aðrar rannsóknir á músum við Háskólann í Iowa í Bandaríkjunum sýndu fram á að ursolicsýran dregur úr vöðvarýrnun í kjölfar föstu og mænuskaða. Bætiefni með ursolicsýru reyndust einnig auka vöðvamassa í heilbrigðum músum. Vefaukandi áhrif hennar eru talin stafa af aukinni insúlínvirkni í vöðvum og bælingu á genavirkni sem talin er tengjast vöðvarýrnun. Af þessu má ráða að ursolicsýra getur hugsanlega aukið bæði fitubrennslu og vöðvamassa. Rannsóknum á mönnum er ekki til að dreifa í þessu tilviki og því er full ástæða til að anda rólega. Það er hinsvegar engin tilviljun að rannsóknir á músum eru notaðar sem undanfari rannsókna á mönnum. Oft má heimfæra slíkar niðurstöður á okkur mennina og því sömuleiðis ástæða til bjartsýni.
(Molecular Nutrition & Food Research, vefútgáfa 5. maí 2015)