Site icon Fitness.is

Dökka súkkulaðið er hollast

Súkkulaði er ekki einungis hlaðið syndum, heldur ótal kostum. Fyrir utan að vera augljóslega eitt besta fáanlega „geðlyfið“ fyrir konur hefur það jákvæð áhrif á kólesterólið í blóðinu. Dökkt súkkulaði sem inniheldur mikið af kakó stuðlar að betri kólesterólmælingu og dregur því ögn úr hættunni á hjarta- og kransæðasjúkdómum.

Rannsóknin sem hér er vísað í náði til 31 þátttakanda og prófað var 70% dökkt súkkulaði og hvítt súkkulaði. Könnuð voru áhrifin á góða HDL og vonda LDL kólesterólið. Þátttakendur tóku að sér það erfiða hlutverk að borða 50 g af súkkulaði á hverjum degi og reyndist dökka súkkulaðið lækka LDL (vonda) kólesterólið en auka HDL (góða) kólesterólið. Hvíta súkkulaðið hafði þveröfug áhrif.

Vísindamennirnir mæla með að ekki sé borðað meira en 50 g af súkulaði á dag vegna hins mikla hitaeiningafjölda í súkkulaðinu. Rannsóknin heldur áfram því nú þarf að komast að því hvort og þá hversu lengi áhrif dökka súkkulaðsins vara og einnig á að kanna hvort ein dökk súkkulaðitegund sé betri en önnur. Á meðan „neyðast“ þátttakendur rannsóknarinnar til að borða 50 g af súkkulaði á hverjum degi.

(San Diego State University)

Exit mobile version