Site icon Fitness.is

Atkinskúrinn tekur á sykurneyslunni

AtkinsbokHelsta framlag Atkinskúrsins er að hann færir fólk nær gömlu manneldismarkmiðunum þar sem neysla á einföldum sykri er lítil. Þannig minnkar hitaeininganeyslan – ekki endilega vegna þess að um kraftaverkakúr sé að ræða.
Manneldismarkmiðin fram til þessa hafa snúist um að fólk eigi að borða mikið af korni, grænmeti og ávöxtum og í fæðupýramídanum hafa kolvetni leikið aðalhlutverk. Atkinskúrinn sem er ekki einungis búinn að tröllríða öllu erlendis heldur einnig hér á landi þar sem hann er ýmist kallaður Atkinskúrinn eða Guðmundarkúrinn í höfuð þjóðþekkts íslendings sem var manna fyrstur til að léttast eftir uppskrift Herra Atkins. Í Atkinskúrnum er megináherslan lögð á prótín- og fituneyslu og lítið af kolvetnum. Í rannsóknum hefur fólk sem er á Atkinskúrnum reynst léttast meira en þeir sem fylgja hefðbundnum manneldismarkmiðum og er það vel.

Það að fólk léttist hraðar eða meira á Atkinskúrnum hefur ekkert með það að gera að einhver galdur sé að baki. Hvað sem öllum kúrum líður er það heildar- hitaeiningafjöldinn sem ræður því hvort fólk léttist eða þyngist. Staðreyndin er sú að í löndum eins og Ítalíu, Þýskalandi og Kína er kornneysla og þar af leiðandi neysla flókinna kolvetna mun meiri en í Bandaríkjunum, en samt er offitutíðnin í þeim löndum mun lægri. Líklegasta skýringin á því að Atkinskúrinn virkar jafn vel og hann virðist gera, er því hugsanlega sú að hann fær fólk til þess að halda sig frá einföldu kolvetnunum. Gosdrykkir, sælgæti, sætabrauð og neysla á hvítu hveiti sem finna má í svo að segja öllu brauði (hamborgarabrauði, pítsubrauði, pylsubrauði og pasta) tilheyrir ekki Atkinskúrnum. Þessar fæðutegundir hafa á skömmum tíma tröllriðið þjóðfélaginu og hefur framlag þeirra helst falist í auðveldu aðgengi að fjölda tómra hitaeininga. Niðurlagið er því það að í raun stendur gamla góða manneldismarkmiðið traustum fótum þrátt fyrir velgengni Atkinskúrsins, en segja má að Atkinskúrinn færi menn nær manneldismarkmiðinu með því að fjarlægja sykursullið og þar af leiðandi fækka hitaeiningunum sem er rót árangursins.

Atkinskúrinn hefur lengi verið til. Í Bandaríkjunum er til gagnasafn yfir þá sem hafa misst 30kg eða meira og haldið þeim árangri í fimm ár eða lengur. Einungis einn maður á Atkinskúrnum hefur náð þeim árangri. Dæmigerður maður sem státar af því að komast á umræddan lista stundar æfingar klukkustund á dag.
(CBSNEWS.com 28. Apríl 2003)

Exit mobile version