Site icon Fitness.is

Æfingar með púlsmælum

Hægt er að láta púlsmæli stjórna álagi í þjálfun með því að finna svokallaðan álagspúls með einföldu reikningsdæmi. Segjum að viðkomandi sé þrítugur, í frekar slöku formi og hámarkspúlsinn áætlaður 190 slög á mínútu. Hann þarf ekki að æfa á meira álagi en 50-60& af hámarkspúlsi. Hans þjálfunarpúls ætti þá að vera 95-115 slög á mínútu. Það er nóg álag í upphafi þjálfunar. Um leið og þolið eykst má hækka þessa viðmiðun, en það gerist á nokkrum vikum. Þjálfaðir einstaklingar æfa á 60-80% álagi án þess að mynda mikla mjólkursýru.

Hægt er að fá púlsmæla sem stilla sjálfir inn þetta þjálfunarálag, en þá setur maður í minni púlsmælisins persónulegar upplýsingar s.s. aldur, þyngd, kyn og hversu virkur maður er. Púlsmælirinn ber svo samn hjartslátt viðkomandi við gagnabankann í minninu og finnur út heppilegt þjálfunarálag. Þessir mælar mæla einnig þolið og getur þá hver og einn fundið sína þoltölu og fylgst reglulega með framförunum. Mælarnir sem geta gert þetta eru t.d. Polar M51 og Polar M52. Fyrir þá sem eru að berjast við aukakílóin eru komnir á markaðinn fitubrennslumælar sem sýna m.a. hversu hátt hlutfall brennslunnar er úr fitu. Það skiptir máli hvort álagspúlsinn er 140 eða 115 hjá lítt þjálfuðum einstaklingi. Á klukkutíma göngu kemur hærra hlutfall frá fitu við lægri púls, en aftur er kolvetnabrennslan meiri við hærri púls. Mælarnir hafa minni sem safnar saman hitaeiningunum sem brennt er á hverri æfingu, þannig að hægt er að geyma langtíma upplýsingar um brennslu í þeim. Mælar sem mæla fitubrennslu eru t.d. Polar M21 og Polar M22 en þeir stilla einnig inn þjálfunarálagið. Fyrir þá sem æfa mjög mikið getur hvíldarpúls sagt til um það hvort viðkomandi sé kominn í ofþjálfun þannig að þeir geta verið mjög gagnlegir.

Exit mobile version