Site icon Fitness.is

Æfing í flösku er tæplega framtíðin

Health (30)Fjölmiðlar erlendis hafa undanfarið kynnt niðurstöður rannsókna á Irisin hormóninu sem von um „æfingu í flösku“ eins og þeir kalla það. Líkaminn framleiðir irisin hormónið við æfingar en það hefur áhrif á efnaskiptahraða sem þýðir að líkaminn brennir fleiri hitaeiningum og það stuðlar að ummyndun hvítrar fitu í brúna. Brúna fitan eyðir frekar orku sem hita í stað þess að geyma orkuna í fituforða.
Brúna fitan er þannig ákveðinn lykill að því hversu auðvelt við eigum með að halda aukakílóunum í skefjum og irisin hormónið leikur þar hlutverk. Spænskir og ítalskir vísindamenn halda því fram að hægt verði í framtíðinni að nota irisin í lyfjaformi sem vopn gegn offitufaraldrinum. Það gæti ennfremur stuðlað að heilbrigði hjá fólki sem á við efnaskiptasjúkdóma að stríða. Fyrirsagnafjölmiðlar hafa gripið þessar getgátur vísindamannanna á lofti og sagt frá irisin hormóninu sem möguleika á „æfingu í flösku“ í framtíðinni. Áhrif æfinga á heilbrigði og líkamsástand eru hinsvegar það víðtæk að telja verður ólíklegt að eitt hormón komi til með að hafa í för með sér alla jákvæðu fylgifiskana sem æfingar hafa.
(Journal of Diabetes, 4: 196-200, 2012)

Exit mobile version