Site icon Fitness.is

Vinsælasta fæðubótarefnið

Verkun kreatíns felst í að auka getu vöðvafrumna til að mynda ný prótín en viðbrögð við kreatíni eru hins vegar persónubundin.

Vegna mikillar virkni þess í styrktaraukningu og þreki hafa vissulega verið birtar neikvæðar greinar um kreatín. Þær eiga það sameiginlegt að byggja á litlu öðru en getgátum, ekki rannsóknum.

Kreatín er vafalítið vinsælasta fæðubótarefnið í heiminum í dag. Eins og lesendur Fitnessfrétta vita birtast af og til greinar um virkni kreatíns og þrátt fyrir að af og til komi fram fæðubótarefni sem standa ekki undir nafni til lengri tíma þá eru nánast allar greinarnar um kreatín jákvæðar.

Nýlega birtu belgískir vísindamenn endurskoðun á rannsóknum á kreatíni. Þar kemur fram að kreatín valdi þyngingu, auknum vöðvamassa og þá fitulausum. Verkun kreatíns felst í að auka getu vöðvafrumna til að mynda ný prótín en viðbrögð við kreatíni eru hins vegar persónubundin.

Aukaverkanir vegna kreatíns eru fáar ef nokkrar samkvæmt miklum meirihluta rannsókna. Einstaka atvikssögur eru til um að kreatín hafi valdið sinadráttum eða magaóþægindum en slíkar aukaverkanir hafa ekki fengist staðfestar í rannsóknum.

Í ofurskömmtum þar sem tekin eru 21 gramm á dag í 14 daga hefur komið í ljós að kreatín getur myndað efnið formaldehýð sem er eitrað og gæti því fræðilega valdið nýrnaskemmdum í viðkvæmu fólki. Franska Matvælaeftirlitið staðhæfði að ofurskammtar af kreatíni gætu fræðilega myndað krabbamein en fyrir því eru engar áreiðanlegar sannanir úr rannsóknum.

Það gildir um kreatín eins og annað að fara þarf eftir ráðlögðum skömmtum. Það eru fá efni hér í heimi sem ekki eru óholl þegar teknir eru ofurskammtar. Íþróttamenn og annað heilsuræktarfólk getur tekið ráðlagðan dagsskammt af kreatíni án þess að hafa áhyggjur. Mælt er með að taka 20 grömm í fimm daga en eftir það einungis 3 til 5 grömm á dag. Þeir sem eru með nýrnasjúkdóma ættu ekki að taka kreatín og eðlilega er mikilvægt að gæta þess að kaupa hreint kreatín.

(International Journal Sports Physiology Performance, 1:311-323)

Exit mobile version