Flestar rannsóknir sýna að niðurskurður á mataræði er áhrifaríkasta leiðin til að léttast og æfingar eru í aukahlutverki hvað það varðar. Æfingar eru hinsvegar nauðsynlegur hluti þess að viðhalda léttingu vegna þess hvernig þær virka sem einskonar inneign í hitaeiningum þegar neyslan verður meiri en skynsemin gerði ráð fyrir. Þær eru sömuleiðis mikilvægar hvað það varðar að þeir sem hafa náð að viðhalda léttingu til langs tíma eiga það flestir sameiginlegt að hafa stundað umtalsverðar æfingar samhliða skynsömu mataræði. Hið dapurlega er að einungis 5% þeirra sem léttast viðhalda léttingunni í meira en ár. Þetta er skuggalega lágt hlutfall en hið jákvæða er að þrátt fyrir umlykjandi freistingar allt um kring eru sumir sem ná að viðhalda léttingunni.
Í Bandaríkjunum er til gagnagrunnur á vegum National Weight Control Registry sem heldur utan um upplýsingar um fólk sem hefur lést um meira en 15 kíló og hefur viðhaldið léttingunni í ár eða meira. Það sem þetta fólk á sameiginlegt er að það brennir 3000 hitaeiningum aukalega í hverri viku með æfingum en það þýðir að þetta fólk æfir um eina klukkustund á dag.
Það er mikilvægt að horfa ekki einungis á árangur út frá því hvað vigtin segir. Þeir sem byrja að stunda æfingar fá aukinn vöðvamassa á sama tíma og það byrjar að losa sig við fitu. Mælt er með að nota málband til að mæla mittismál og önnur mál á líkamanum í staðinn fyrir baðvogina til að fylgjast með framförum.
(American Journal Clinical Nutrition, 102: 1303-1304, 2015)