Það eru sennilega ekki allir sem hafa gert sér grein fyrir því að sækni okkar í einhverjar ákveðnar matartegundir og matarvenjur er í raun og veru einungis spurning um vana. Fólk sem sækir í feita fæðu var nokkuð örugglega alið upp við feitar matartegundir. En svo aftur á móti þeir sem vilja frekar fá sér ávöxt í staðinn fyrir súkkulaðistykki hafa frekar alist upp við heimilissiði þar sem sykur og sælgæti eru bannvörur eða einungis borðað við einstök tækifæri.
Vaninn sterkur
Vani er alltaf vani svo að það er jafn auðvelt að búa til góðan vana eins og slæman. Með því að venja börnin við það að vilja frekar fitusnauðan mat í staðinn fyrir sykur og saltríkan, þá er hægt að gera þeim það eiginlegt að vera á heilsusamlegu fæði, sem minnkar líkurnar á því að þau verði síðar á ævinni fórnarlömb hjarta og kransæðasjúkdóma og ótal annarra kvilla auk offitu. Þegar menn hins vegar fullorðnast og þurfa að breyta um mataræði hvort sem það er samkvæmt læknisráði eða ekki þá er það erfitt þar sem vaninn er sterkur og löngunin í það að borða einungis það sem þeir hafa vanist. Þarna liggur kjarninn á bak við það hvers vegna mönnum tekst ekki að verða grannir þar sem það þýðir ekki að ætla sér að gera endalausar byltingar í megrun. Það þarf að koma sér upp næringarríku og góðu mataræði á eðlilegan hátt, átakslaust með því smám saman að koma sér upp betri og betri venjum. Engin stökk.
Það er mjög persónubundið hversu auðveldlega mönnum tekst að breyta um fæðuvenjur, það fer þó oftast eftir því hversu vanir menn eru að taka sjálfa sig á beinið og sýna rétta breytni. Menn hafa tekið alls kyns ráðleggingum til þess að bæta úr þessu og hafa ráðin verið jafn misjöfn eins og þau eru mörg. En því miður þá er engin almenn lausn á því hvernig menn eigi að breyta um mataræði eða önnur skyld atriði en eitt er víst og það er að hugsanabreyting þarf að koma til, þar sem venjur eru mest huglægar.
Ábyrgðarhlutverk að velja mat handa börnum
Út frá þessu ættu menn að sjá að það er ábyrgðarhlutverk að velja mat handa börnum og auðvitað á þetta ekki einungis við um mataræði heldur einnig ýmsar aðrar venjur sem foreldrar taka sér fyrir hendur. Í því sambandi má ekki gleyma að börnin læra af fyrirmyndum.
Sölumenn elska áhrifagirni
Yfirleitt þegar fólk fer í matvöruverslun til þess að kaupa til heimilisins er allt keypt sem hugurinn girnist og fjárhagurinn leyfir. Þegar farið er að versla með því hugarfari er auðvelt að blekkjast og kaupa hvað sem er. Allsstaðar hillur fullar af alls kyns freistandi vörum misjöfnum að gæðum og gerðum. Það sem er hættulegast í þessu öllu saman er að of algengt er að fólk flokki matvörur niður eftir bragðgæðum og engu öðru. Þetta gerir framleiðendum kleift að framleiða næstum því hvað sem er svo lengi sem engin hættuleg rotvarnar eða litarefni koma þar við sögu. Auðvelt er að koma vörum á framfæri með skrautlegum auglýsingum og slagorðum og vinsælt er að sýna fjölskyldur, börn, unglinga, eða einhverja sérstaka hópa háma í sig eitthvað góðgæti. Áhorfendur sem kenna sig við einhverja af þessum hópum telja síðan vöruna vera eitthvað fyrir sig. Sölumenn elska áhrifagjarnt fólk þar sem hægt er að teyma það fram og til baka að þeim óaðvitandi, eftir því hvað þarf að selja. Ert þú undir áhrifum?