Site icon Fitness.is

Valdabarátta innan æfingastöðvana

Einkaþjálfarar hafa verið gagnrýndir fyrir litla menntun, en í raun er engin stétt til sem hefur öðlast menntun í bæði líkamsrækt og næringarfræði.

Umræðan um offitu sem heilbrigðisvandamál hefur ekki farið framhjá neinum sem les Fitnessfréttir. Offita er ekki bara orðin eitt stærsta vandamálið, heldur er framtíðin kolsvört í augum þeirra sem spá fyrir um ástandið eftir nokkur ár. Ef tekið er mið af því hversu stórt hlutverk offitan spilar í heilbrigðismálum okkar, réttara sagt heilbrigðisvandamálum, þá skítur það skökku við að læknar eru almennt lítt fróðir um næringarfræði og nám þeirra felur í sér litla næringarfræði. Flestir læknar sem hafa þekkingu á næringarfræði og líkamsrækt gera það vegna persónulegs áhuga. Náminu er ekki fyrir að þakka. Á vissan hátt hefur heilbrigðiskerfið brugðist að þessu leiti. Það er ekki fyrr en komið er inn á sjúkrahús sem fólk hefur aðgang að menntuðum næringarráðgjöfum og því á vissan hátt um sjúkdómakerfi að ræða en ekki heilbrigðiskerfi.

Einkaþjálfarar og misjafnlega menntaðir þjálfara í æfingastöðvum landsins hafa tekið við hlutverki næringarfræðinga og lækna þegar að því kemur að mennta almenning um heilbrigt mataræði og lífshætti. Þetta hefur valdið árekstrum á milli þeirra og hinna rótgrónu heilbrigðisstétta þar sem hinir síðarnefndu hafa uppi efasemdir um að menntun þjálfarana sé boðleg. Þessir árekstrar gerast sífellt algengari og ekki er að sjá að þessi þróun sé á undanhaldi. Það sem helst mælir gegn því að breytinga sé að vænta í þá áttina er eftirspurnin. Fólk sækir í æfingastöðvarnar þegar það hyggst taka sig á í heilbrigðari lífsháttum. Þangað fer fólkið en þar eru næringarfræðingarnir eða læknarnir ekki til staðar til að miðla sinni þekkingu nema í einstaka tilvikum. Einkaþjálfararnir hafa á vissan hátt svarað þeirri eftirspurn sem hefur myndast og þrátt fyrir vaxandi fjölda þeirra virðist eftirspurnin eftir þeim vaxa hraðar en svo að þeir hafi undan.

Næringarfræðingar hafa ekki ráðið við offitufaraldurinn

Þegar talað er við næringarfræðinga ber fljótt á löngun þeirra til að ná taumhaldi á einkaþjálfurunum. Þeir telja að það sem þeir eru að gera sé sitt hlutverk, auk þess sem þeir gera lítið úr menntun þeirra. Það væri vissulega þægilegt að leysa heimsvandann hvað þetta varðar með því að segja sem svo að næringarfræðingar séu þeir einu sem eigi að hafa rétt til að ráðleggja fólki um mataræði og að einkaþjálfarar skuli halda sig við að leiðbeina fólki í æfingum. Því miður gengur slík lausn ekki upp. Þrátt fyrir að einn eða tveir næringarfræðingar væru starfandi í flestum æfingastöðvum myndi það ekki anna þeirri eftirspurn sem er til staðar.

Eitt ríkasta hlutverk einkaþjálfara er að gefa sé tíma til að ræða við fólk um þeirra lífsstíl og gefa því ráðleggingar um hreyfingu, mataræði, svefn og annað sem áhrif hefur á líkamsástandið. Einnig má horfa á málið þeim augum að næringarfræðingar heilbrigðiskerfisins hafi þegar brugðist. Þeir hafa fram til þessa haft það hlutverk að segja almenningi hvað á að borða til þess að halda ákjósanlegri líkamsþyngd en miðað við þá staðreynd að offita er á góðri leið með að verða eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamálið er ekki hægt að segja að það sem næringarfræðingar hafi verið að gera á því sviði hafi skilað árangri. Einkaþjálfari sem hefði skilað þessum árangri með viðskiptavin yrði tæplega vinsæll.

Skortur á hlutverkaskipan

Miðað við hve alvarleg offita er orðin, er undalegt að hugsa til þess í hve lausum farvegi þessi máli eru. Næringarfræðingar hafa á vissan hátt misst af lestinni og eru ekki í takt við tímann, enda ólíklegt að þeir komi til með að anna þeirri eftirspurn sem er til staðar í nánustu framtíð. Heimilislæknar eru eins og áður sagði ekki almennt í stakk búnir til að leiðbeina fólki um mataræði þar sem menntun þeirra gerir ekki ráð fyrir því. Sjúkraþjálfarar eru byrjaðir að reyna að skapa sér sess sem menntuð stétt á sviði æfinga, en eiga uppruna sinn í sjúkdómakerfinu og hafa litla næringarfræðimenntun auk þess sem þeirra menntun á sviði æfinga tekur mið af vandamálum.

Íþróttakennarar hafa fram til þessa lært lítið um næringarfræði eða tækjaæfingar en eru að breyta námi sínu í takt við þarfir líkamsræktarstöðvana sem reyndar lofar góðu. Það er því varla til sú starfsstétt í þjóðfélaginu sem hefur farið hina hefðbundnu menntunarleið sem getur tekið að sér leiðandi hlutverk. Einkaþjálfarar í æfingastöðvum hafa í raun tekið að sér þetta hlutverk í kjölfar eftirspurnarinnar vegna þess að til þeirra hefur fólkið viljað fara. Það væri sjálfsagt óskastaða að menntaðir næringarfræðingar eða íþróttakennarar gætu sinnt öllu þessu fólki, en til þess verður fólkið að vilja sækja til þeirra.

Einkaþjálfarar eru oft fyrirmyndir sem hafa sjálfir náð árangri en næringarfræðingarnir þrátt fyrir sína ágætu menntun, hafa mjög takmarkaða menntun á sviði líkamsræktar. Þegar talað er við íþróttakennara, sjúkraþjálfara eða næringarfræðinga kemur gjarnan upp á yfirborðið tilhneyging hjá þeim til að vilja eigna sér líkamsræktarmarkaðinn og býr ákveðinn menntahroki þar að baki, barátta þeirra á milli og einkaþjálfarana hafa þeir á hornum sér.

Einkaþjálfarar hafa verið gagnrýndir fyrir litla menntun, en í raun er engin stétt til sem hefur öðlast menntun í bæði líkamsrækt og næringarfræði. Ein helsta ástæðan fyrir því að sumir einkaþjálfara eru vinsælir er sú að margir þeirra eru upprunnir úr keppnisgeira vaxtarræktarinnar eða fitness þar sem menn ná ekki árangri nema tileinka sér verklega bæði þekkingu á mataræði og æfingum. Þeir eru því oft gangandi dæmi um að þeir hafi og geti náð árangri.

 

Exit mobile version