Um helgina fer fram heimsmeistaramót unglinga og öldunga fitness í Búdapest í Ungverjalandi. Una Heimisdóttir gerði sér lítið fyrir og náði þriðja sæti í unglingaflokki í fitness kvenna eftir erfiða keppni við marga af fremstu fitnesskeppendum heims frá hinum ýmsu löndum. Alls keppa um 350 keppendur á heimsmeistaramótinu sem er eitt fjölmennasta mót sem haldið hefur verið. Heimsmeistara- og Evrópumót Alþjóðasambands líkamsræktarmanna IFBB eru erfiðustu mótin sem standa áhugamönnum til boða í fitness og vaxtarrækt og þessi árangur Unu verður að skoðast í því ljósi. Þetta er einhver besti árangur sem íslenskur keppandi hefur náð fram til þessa í keppni sem þessari.
Alls keppa fjórir íslenskir keppendur á heimsmeistaramótinu. Elva Bergþórsdóttir keppti sömuleiðis í dag en komst ekki í eitt af sex efstu verðlaunasætunum. Á morgun keppa þær Kristín Kristjánsdóttir og Linda Jónsdóttir í flokki kvenna 45 ára og eldri. Sá flokkur er stór og erfiður og morgundagurinn verður því spennandi hjá íslensku keppendunum.