Site icon Fitness.is

Tvö Íslandsmet féllu á þrekmeistaranum

Pálmar Hreinsson og Kristjana Hildur Gunnarsdóttir sigruðu bæði á bikarmóti Þrekmeistarans í gær sem fram fór í Íþróttahöllinni á Akureyri. Pálmi fór í gegnum brautina á tímanum 15:38:03 sem er bæting á hans eigin Íslandsmeti um fimm sekúndur. Kristjana fór á tímanum 17:59:57 sem var einnig bæting á eigin Íslandsmeti um níu sekúndur.Liðið Boot Camp Babes urðu bikarmeistarar í opinni liðakeppni kvenna á tímanum 14:40:29 sem vantar eina sekúndu upp á Íslandsmetið og Peyjar frá Vestmannaeyjum sigruðu í liðakeppni karla á tímanum 18:48:59. Þau Guðrún Ragnarsdóttir frá Vestmannaeyjum og Guðlaugur B. Aðalsteinsson sigruðu í einstaklingsflokkum 39 ára og eldri. Guðrún fór á tímanum 20:44:91 og Guðlaugur á 17:52:23 sem dugði honum jafnframt í annað sætið í opnum flokki karla. Pálmar sýndi það að hann er tvímælalaust fremstur í flokki þrekmeistara með frammistöðu sinni. Sífellt erfiðara gerist að bæta Íslandsmetin, en hann saxaði fimm sekúndur af metinu sem hann sló á síðasta ári.
Kristjana kom á óvart á síðasta ári með því að sigra þá á nýju Íslandsmeti í þessari erfiðu keppni. Kristjana æfir í Lífsstíl í Keflavík en þaðan hafa margir góðir keppendur komið í gegnum tíðina enda rík hefð fyrir keppnisskapi þar á bæ.
Guðlaugur B. Aðalsteinsson sem sigraði í flokki karla eldri en 39 ára hefur öðlast mikla keppnisreynslu í þrekmeistaranum og hefur aldrei verið í jafn góðu formi. Tími hans núna er 35 sekúndum frá Íslandsmetinu sem líklegt þykir að hann geri atlögu að á þrekmeistaranum í haust.
Guðrún Ragnarsdóttir frá Vestmannaeyjum var fegin að lokinni keppni og náði fínum tíma. 20:44:91.
Boot Camp Babes mættu galvaskar til keppni og héldu uppi nafni Boot Camp karlaliðsins sem lét sig vanta að þessu sinni á Þrekmeistaranum. Þær sigruðu í liðakeppni kvenna.
Vestmannaeyingar fjölmenntu á þrekmeistarann bæði til að keppa og fylgjast með.

Exit mobile version