Site icon Fitness.is

Tilhugsun um að fá sér blund lækkar blóðþrýstinginn

Hugurinn ber þig hálfa leið stóð einhvers staðar. Í rannsókn sem náði til 23.000 manns í grikklandi kom fram að hægt var að lækka blóðþrýsting verulega með því að fá sér stuttan blund að degi til.Hugarástand og sálarástand hefur mikil áhrif á heilsuna eins og við vitum. Það sem þótti merkilegt og var hinsvegar ekki jafn vel kunnugt fyrir þessa rannsókn var að blundur dregur úr líkunum á að fá hjartaáfall um 37% og að blóðþrýstingurinn lækkar áður en lagst er til hvílu. Með því að mæla blóðþrýsting og hjartslátt komust þeir að því að 5 mínútum áður en ljósin voru slökkt og lagst var útaf lækkaði blóðþrýstingurinn mest. Þessi niðurstaða er svolítið merkileg fyrir þær sakir að engu líkara er en að tilhugsunin við það að leggja sig virðist lækka blóðþrýstinginn. Mikil áhersla er lögð á það að rannsaka áhrif svefns á blóðþrýsting og hjartasjúkdóma. Ástæðan er sú að flest hjartaáföll eiga sér stað fljótlega eftir að viðkomandi vaknar á morgnana. Ætlunin er að leggja meiri áherslu á að rannsaka hvað gerist í líkamanum þegar viðkomandi vaknar af værum blundi með tilliti til hjartasjúkdóma. Journal of Applied Physiology, 103: 1332:1338, 2007

Exit mobile version