Site icon Fitness.is

Styrktarþjálfun gagnleg fyrir langhlaupara

hlaupari

Fæstir langhlauparar stunda styrktarþjálfun vegna þess að þeir telja að þeir hafa ekki trú á því að það geri gagn í hlaupunum og hafi jafnvel neikvæð áhrif. Þessi skoðun hefur byggst á þeirri kenningu að ef vöðvarnir stækki verði hlaupin ekki eins hagkvæm og hugsast getur (það kalli á meiri orku og súrefni að hlaupa á ákveðnum hraða). Nýlega hefur þó verið sýnt fram á að styrktarþjálfun auki hagkvæmni í kvenkyns-langhlaupurum (Johnston,RS. et al. Strength Training in Female Distance Runners: Impact o­n Running Economy, Journal of Strenght and Conditioning Research. 11:224-229,1997).

Vel þjálfaðar langhlaupskonur æfðu styrktarþjálfun þrisvar í viku í tíu vikur til viðbótar við þeirra vanalegu hlaupaáætlun. Styrktarþjálfunin samanstóð af tveimur mismunandi flokkum sjö æfinga sem voru breytilegar. Í öðrum flokknum voru gerðar hnébeygjur, fótaréttur fyrir framan, kálfalyftur með beina fætur, sitjandi fótapressa, Niðurtog fyrir aftan í vél (bak), tvíhöfðalyftur og þyngdar uppsetur (magi). Í hinum æfingaflokknum voru gerð framstig, fótaréttur fyrir framan, kálfalyftur með bogin hné, bekkpressa, sitjandi róður, niðurtog fyrir framan (bak) og uppsetur.

Fjöldi lota og endurtekninga var frá því að vera þrjár lotur með sex endurtekningum upp í tvær lotur með 20 endurtekningum eftir því hvaða æfing átti í hlut. Hinsvegar voru öll sett framkvæmd þar til gefist var upp eða hámarksfjölda endurtekninga var náð. Styrktaraukningin í efri hluta líkamans var að meðaltali 24% og 34% í neðri hluta líkamans í æfingunum. Styrktarþjálfunin breytti engu um heildar-súrefnisnotkun í hlaupum á hlaupabretti né fituhlutfalli eða vöðvamassa. Hinsvegar breytti hún töluverðu í hagkvæmni hlaupanna gagnvart samanburðarhóp hlaupara sem héldu áfram sínum hefðbundnu hlaupaæfingum án styrktaræfinga þessar 10 vikur. Aðrar rannsóknir hafa stutt þessar niðurstöður en þær hafa líka sýnt fram á framfarir í langhlaupum og hjólreiðum þegar styrktarþjálfun er bætt við þjálfunina. Vísindamennirnir benda á að niðurstöðurnar sýni fram á að það geti skipt sköpum fyrir keppnismenn í langhlaupum að stunda styrktarþjálfun. Hægt sé að saxa mikilvægar sekúndur aftan af hlaupatímanum sem oft ráða því í hvaða sæti hlauparinn lendir.

Exit mobile version