Site icon Fitness.is

Streita er fitandi

Líffræðilegar ástæður þess að maðurinn á erfitt með að neita sjálfum sér um góðan mat þegar streita er annars vegar. Sykursterar eins og kortisól eru streituhormón sem eru hluti af ósjálfráðu varnarkerfi líkamans og mikið magn af kortisól sykursteranum í blóðinu veldur aukningu á kviðfitu.Í gegnum þróunarsöguna hefur maðurinn komist af fyrir tilstilli flótta og varnarviðbragða líkamans. Gen okkar hafa þróast þannig í gegnum tíðina að okkur er eiginlegt að varðveita orku í formi fitu þar til við þurfum á að halda. Í dag berjumst við ekki fyrir lífi okkar lengur með því að berjast við eða flýja undan rándýrum. Þessi umframorka sem við berum utan á okkur sem aukakíló er orðin okkur hættulegri heldur en rándýrin sem áður fyrr eltu okkur. Kortísól hormónið á stóru hlutverki að gegna í þessu ósjálfráða varnarkerfi líkamans vegna þess að það eykur matarlyst og stuðlar að því að við geymum frekar fitu sem forða og þannig eigum við meiri möguleika til þess að komast af. Kortisól og endorfín (sem skapa vellíðan) sem fara út í blóðrásina þegar streita herjar á okkur hvetja okkur þannig til þess að borða hitaeiningaríkt fæði. Þegar um er að ræða króníska streitu er þetta kerfi nánast sífellt í gangi og hvetur okkur þannig ósjálfrátt til ofáts. Kortisól hefur þannig áhrif á matarlyst okkar og efnaskipti með áhrifum sínum á leptín, insúlín og svokölluð taugapeptíð Y (NPY) sem á móti stuðla að matgræðgi og því að næringarefni geymist sem fituforði. Krónísk viðvarandi streita stuðlar þannig að offitu vegna þess að umbunarkerfi heilans hvetur til ofáts og er máttugra en meðvitaðar þarfir okkar til þess að bæta heilsu okkar og útlit.

Exit mobile version