Símarnir okkar og spjaldtölvurnar eru ekki bundnar við skrifstofuna eins og hefðbundnar tölvur. Sérstaklega símarnir eru við hendina allan sólarhringinn og margir lesa ekki lengur bók fyrir svefninn, heldur lesa mis-uppbyggilegt efni á símunum sínum eða spjaldtölvum fyrir svefninn. Þessi ávani getur hinsvegar valdið lélegum svefni og stuðlað að síþreytu yfir daginn ef marka má rannsókn sem gerð var við Harvardháskóla. Menn sofna síður og sofa verr ef skjárinn er baklýstur eins og flestir símar og spjaldtölvur eru reyndar í dag. Ástæðan er sú að birta hefur mikið að segja fyrir svefnvenjur. Hormónaframleiðsla líkamans stjórnast af birtu. Það er engin tilviljun að við verðum syfjuð eftir að hafa slakað á í dimmu herbergi. Myrkrið veldur syfju vegna þess að líkaminn fer að framleiða meira af melatónín hormóninu.
Vísindamennirnir rannsökuðu fólk í sérstakri svefn-rannsóknarstofu í tvær vikur og bentu á að ljósið sem stafar af skjám skín beint í andlitið en ljós frá náttborðslampa endurkastast af pappírnum í venjulegri bók. Viðvarandi svefnleysi vegna spjaldtölvunotkunar getur aukið hættuna á hjartasjúkdómum, krabbameini, offitu og sykursýki. (Proceedings National Academy of Sciences, 112:1232-1237, 2015)