Site icon Fitness.is

Réttstöðulyftan góð heildaræfing fyrir vöðvamassa

Rússneska kraftlyftingatröllið Pavel Tsatsouline flokkar réttstöðulyftuna sem bestu einstöku æfinguna til þess að byggja upp vöðvamassa í stærstu vöðvahópunum. Réttstöðulyftan virkar á rassinn, bakið, trappann, axlir, framhandleggi, fætur og maga svo eitthvað sé nefnt. Hreyfingin sem framkvæmd er í lyftunni er mjög algeng undirstaða í mörgum íþróttagreinum og gagnast því vel til margra hluta. Fyrir vaxtarræktarmenn er réttstöðulyftan mjög góð æfing til þess að auka vöðvamassa á sem skemmstum tíma. Fullorðið fólk hefur jafnvel mikið gagn af þessari æfingu þar sem hún reynir á vöðva sem mikið eru notaðir í daglegri hreyfingu eins og að standa upp úr stólum, ganga upp stiga eða halda á innkaupapokum. 
Ef þú ert að leita að einni æfingu sem tekur á marga vöðvahópa er réttstöðulyftan það sem þig vantar. Hinsvegar eru til ýmsar útfærslur á lyftunni. Kraftlyftingamenn notast við annað hvort hefðbundnu aðferðina eða sumo gripið þar sem menn standa gleiðar með gripið innan við hnén. Í hefðbundinni aðferð er haldið um stöngina með axlabreidd og haldið utan við hnén. Sumoaðferðin leggur minna álag á neðra bakið og því kjósa margir kraftlyftingamenn að beita þeirri aðferð en síðan er hægt að lyfta með beina eða bogna fætur enda tekur mikið á bakið að hafa fæturna beina en er varasamt gagnvart hugsanlegum meiðslum. Litlar breytingar á gripinu geta breytt átakinu mikið það er t.d. allt annað að halda með snörunargrip, þ.e.a.s. gleitt.

Exit mobile version