Site icon Fitness.is

Offita er aðal heilbrigðisvandamálið

KarlBordaPizzaÞað þarf ekki annað en að horfa í kringum sig til þess að sjá að fjöldi fólks á við offituvanda að etja og lifir óheilbrigðum lífsstíl. Sumir drekka of mikið, aðrir reykja á meðan enn aðrir eru fátækir eða eiga erfitt með að framfleyta sér. Roland Sturm og Kenneth Wells gerðu nýlega könnun sem benti til þess að offita er helsta heilbrigðisvandamálið sem við berjumst við í dag. Þeir gerðu könnun í Bandaríkjunum þar sem 10.000 manns voru spurðir út í heilbrigðisvandamál sín og lífsgæði. Þeir komust að því að 36% voru of þungir, 23% voru þjakaðir af offitu, 19% voru reykingamenn, 14% voru fátækir og 6% voru miklir drykkjumenn. Offitan hefur mikið að segja fyrir heilbrigðiskerfið vegna þess hversu dýr hún er. Offitusjúklingar eru líklegir til að fá ýmsa hrörnunarsjúkdóma sem krefjast langtíma meðferðar eins og hjartasjúkdóma, sykursýki, of háan blóðþrýsting, gigt og sumar tegundir krabbameins. Í niðurlagi segja þeir félagar að miðað við það hversu hratt offita er að vaxa í þjóðfélaginu ætti hún að vera í forgangsröð varðandi forvarnir. Okkur Íslendingum er óhætt að bera okkur saman við Bandaríkjamenn að þessu leiti þar sem offita hér á landi er síst á undanhaldi.
(Pub. Health, 115: 229-235, 2001)

Exit mobile version